143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[01:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Áhugi minn og hrifning á Evrópusambandinu kemur einmitt til af því að ég tel mikilvægt að við sem lítil þjóð tengjum okkur stærri heild til þess að fjalla um þau mál sem brenna hvað heitast á mannkyninu. Eitt af þeim stórmálum eru umhverfismál.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að sem ung kona sá ég það sem ákveðna leið út úr klíkusamfélagi helmingaskiptanna að tengja okkur stærri heild þar sem fleiri sem hefðu sömu skoðanir og við femínistar, umhverfisverndarsinnar, mannréttindasinnar væru að berjast fyrir umbótum á því sviði.

Nú er það svo að það er ekki alltaf jólin innan Evrópusambandsins. Þar eru íhaldssöm öfl og þar eru „Berlusconiar“ og þar eru þjóðir sem leyfa sér að svindla með bókhaldið sitt árum saman. Ég ætla ekkert að draga dul á það og ég fagna ekki slíkri framkomu. En þar eru líka milljónir manns sem vilja til að mynda raunverulegar framfarir í umhverfismálum, sem hafa náð gríðarlegum árangri og Evrópusambandið er í fararbroddi þegar kemur að lagalegum stoðum til þess að tryggja velsæld mannkyns til framtíðar. Það hefur þó ekki dugað til og þarf að herða á í þeim efnum.