143. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið (skýrsla).

320. mál
[02:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég spurði að því áðan af hverju við værum allt í einu farin að tala á næturnar þegar þetta mál kemur á dagskrá, af hverju takturinn í þinginu breyttist þegar þetta eina mál kom hingað inn. Svörin hljóta einfaldlega að liggja í því að myrkraverkin þoli ekki dagsins ljós, þau bara þoli það ekki. Það hlýtur að búa eitthvað annarlegt að baki þessum tillöguflutningi fyrst menn þurfa í fyrsta lagi að ræða málið á næturnar þegar nægur tími er til vors og þegar hæstv. ráðherra hefur í öðru lagi ekki komið hingað upp til að svara einföldustu spurningum um hvað búi þarna að baki. Hann leggur ekki í það, myrkraverkin eru slík að hann leggur ekki í það. Svörin við þessum spurningum þola heldur ekki dagsins ljós, svör við einföldum spurningum sem við höfum lagt fram — nema hrokinn fari þannig með hann að hann telji sig ekki þurfa að svara þinginu. Það er öllu verra.

Virðulegi forseti. Við hljótum að fara fram á það, fyrst hæstv. utanríkisráðherra getur ekki (Forseti hringir.) tekið þátt í þessum umræðum, að hæstv. forsætisráðherra geri það eða einhver annar (Forseti hringir.) í ríkisstjórninni svo að hugsanlega fáist einhver svör.