143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

kosningaloforð og efndir.

[11:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi svars míns vekja athygli á viðtali sem hv. þm. og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson fór í í ágúst 2011 á Stöð 2 þar sem hann var spurður: Kæmist hann í ríkisstjórn og hefði hann til þess vald, mundi hann slíta viðræðunum? Svar hans var já. Ég held að ágætt sé að rifja það upp.

Ég tel einnig rétt að rifja aðeins upp, (Gripið fram í.)ég tel reyndar, (Gripið fram í.)ég held að rétt sé að rifja upp, (Gripið fram í.)ég tel rétt að rifja það upp, virðulegi forseti, í aðdraganda þessa máls. Það var (Gripið fram í.)ágæt grein sem birtist í Morgunblaðinu nú fyrir skömmu síðan sem skrifuð var af Indriða Aðalsteinssyni, bónda á Skjaldfönn, þar sem hann rifjar það upp að formaður Vinstri grænna hafði kvöldið fyrir kjördag í sjónvarpi, aðspurður hvort sótt yrði um aðild að ESB, svarað því svo til, með leyfi virðulegs forseta:

„Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.“

Samt sem áður, væntanlega ótilneyddur, ætla ég, var tekin sú ákvörðun í þeirri ríkisstjórn, vegna þess að annar stjórnarflokkurinn sótti það fast, að sækja um aðild að ESB. Reyndar sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í umræðum um það mál að hann áskildi sér allan rétt til þess að rjúfa samningaviðræðurnar og hætta þeim ef ekki næðust að hans mati ásættanlegar niðurstöður. En ég vek athygli á yfirlýsingunni frá því deginum fyrir kjördag.

Ég hef lýst því hvernig það snýr að mér, hvaða afstöðu ég hef tekið í þessu máli. Ég bendi á að öll rök hníga til þess að það muni ekki fást nokkrar undanþágur, enda ákvað fyrri ríkisstjórn fyrir áramótin á sínu síðasta heila starfsári að setja viðræðurnar á ís. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Vegna þess að menn sáu framan í nákvæmlega sömu stöðu og við sjáum, að þetta gengur ekki upp. Stærsta kosningaloforðið sem menn eiga að gefa, og gefa, og verða að standa við sama hvað öllu öðru líður (Forseti hringir.) er að vernda hagsmuni Íslands. (Forseti hringir.) Það er okkar mat hér (Forseti hringir.) að þetta sé best fyrir hagsmuni Íslands. (Gripið fram í: Sammála.)