143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[16:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það líður að lokum umræðu um skýrsluna um Evrópumálin og er ástæða til þess að þakka fyrir skýrsluna og umræðuna sjálfa. Við í Samfylkingunni höfum lengi verið þeirrar skoðunar, eins og raunar flest ríki í Evrópu af þeim sem náð hafa mestum efnahagslegum árangri, mestum árangri á mörgum öðrum sviðum samfélaganna, allt frá smáríkjum eins og Lúxemborg og upp í stór ríki eins og Þýskaland, að hagsmunum okkar sé best borgið innan Evrópusambandsins og í Evrópusamstarfinu. Auðvitað eru undantekningar frá því eins og við þekkjum með Noreg til að mynda, en það er engu að síður ástæða til að hafa í huga að forustan þar í efnahagsmálum, í atvinnulífinu og í stjórnmálalífinu var einarðlega þeirrar skoðunar að Noregi væri líka best borgið innan þessa samstarfs þótt því væri síðan hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvers vegna er það? Ástæðan er býsna augljós. Heimur okkar verður æ alþjóðavæddari. Atvinnulífið og efnahagslífið verður allt æ alþjóðlegra. Það sem hendir okkur verður í æ ríkari mæli eins og nýlegar fjármálakreppur og umhverfismál og önnur af stærstu verkefnum samtímans, þau eru ekki bundin við landamæri gömlu þjóðríkjanna heldur eru fjölþjóðleg. Við þurfum að vinna að framförum í okkar eigin löndum með því að starfa með öðrum ríkjum að úrlausn verkefna í því að fást við vandamál og í því að byggja upp. Það er einfaldlega nærtækast fyrir ríki eins og Ísland að vinna að því með helstu viðskiptaþjóðum sínum og þeim þjóðum sem við eigum mest menningarleg samskipti við og mest sameiginlegt með. Það eru lönd Evrópusambandsins.

Það vitnar hins vegar að mínu viti um nokkurn molbúahátt að hér hefur umræðan oft á tíðum tilhneigingu til þess að snúast fyrst og fremst um undanþágurnar sem við gætum fengið frá því samstarfi.

Virðulegur forseti. Það er engin ástæða til þess að einblína á undanþágur. Fengurinn er að samstarfinu, að því að smátt og smátt verða æ stærri svæði einsleit með reglusetningu, með niðurfellingu hindrana, með opnun landamæra, með frjálsari verslun og viðskiptum á milli landa, auknu menningarsamstarfi, fólksflutningum o.s.frv. En það er nauðsynlegt að taka umræðuna um undanþágurnar og það er eitt af því jákvæða sem fram kemur í skýrslunni. Það er óvenjumikil bjartsýni varðandi landbúnaðinn sem er kannski annað af helstu hugðarefnum okkar þegar kemur að sérlausnum, sem er það sem er í boði í Evrópusambandinu, ekki undanþágur eins og orðhengilshátturinn hefur verið hér í umræðunni. Það er heldur jákvæðari tónn um að unnt sé að koma til móts við hagsmuni okkar með sérlausnum gagnvart landbúnaðinum.

Það hins vegar vita allir, allir hér á Alþingi, allir Íslendingar og sannarlega Evrópusambandið, að meginhagsmunir okkar um sérlausn er sjávarútvegur. Þar þurfum við og verðum að fá sérlausn. Sú sérlausn er í boði. Það er yfirlýst af hálfu stækkunarstjóra Evrópusambandsins, bara nýlega. Það er þess vegna brýnt hagsmunamál fyrir okkur að fá fram þá sérlausn sem í boði er í stærsta hagsmunamáli okkar, sjávarútveginum, hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar, hjá helstu kaupendunum að sjávarútvegsframleiðslu okkar.

Við höfum sameinast í þingsályktun um að setja mjög ströng skilyrði sem þurfi að nást fram í sjávarútvegi. Sú samningsafstaða sem var svo gott sem tilbúin í sjávarútvegi hér á síðasta kjörtímabili gekk raunar enn lengra í því en þingsályktunin gerði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að leggja fram þær eindregnu kröfur í sjávarútvegsmálum og fá svör Evrópusambandsins á borðið.

Ég fullyrði að ástæðan fyrir svikatillögunni sem kom fram á dögunum, einhverjum stærstu kosningasvikum sem við höfum orðið vitni að af hálfu Sjálfstæðisflokksins, er sú að það eru öfgaöfl hér í samfélaginu sem óttast að sérlausnirnar í sjávarútvegi komi fram. Auðvitað má hverjum manni vera ljóst að Evrópusambandið, með áratuga reynslu af alþjóðlegum samningaviðræðum í erfiðustu úrlausnarefnum á alþjóðavettvangi, hafandi farið í gegnum aðildarviðræður við hvert ríkið á fætur öðru, hóf ekki samningaviðræður við Ísland um aðild að Evrópusambandinu nema vegna þess að samningamenn sambandsins töldu að þeir gætu boðið Íslandi lausn sem fengi stuðning meiri hluta Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er hverjum manni ljóst að íslenskur almenningur mun aldrei samþykkja aðildarsamning við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu nema þar séu hagsmunir Íslands í sjávarútvegsmálum tryggðir. Flóknara er það ekki. Íslenskir kjósendur eru vel upplýstir kjósendur. Þeir vita hvert er meginhagsmunamál okkar í efnahagsmálum. Þeir geta vel lagt mat á þá sérlausn sem í boði er og þeir munu auðvitað fella samning sem ekki felur í sér lausn á því.

Evrópusambandið lagði ekki upp í samningaviðræður við Ísland til að láta fella samning, það má hverjum manni vera ljóst, einkanlega eftir þá reynslu sem þeir höfðu af samningaviðræðum við Noreg í tvígang.

Hagsmunir okkar af því að öðru leyti og hinir stærstu hagsmunir okkar í málinu eru hins vegar hagsmunir viðskiptafrelsisins. Það að verða fullir þátttakendur í samstarfi helstu viðskiptalanda okkar í því að fella niður hindranir, fá aukinn aðgang að samstarfinu á markaðssvæðum okkar, á helstu markaðssvæðum okkar, og helst af öllu að fá líka aðgang að þeim bakhjarli sem seðlabankinn fyrir þetta markaðssvæði er, Evrópski seðlabankinn, og af evrópska myntsamstarfinu með öllum þeim kostum sem því geta fylgt fyrir okkur sem höfum fullreynt það að reyna að reka minnsta fljótandi gjaldmiðil í heimi og værum gjaldþrota ef við hefðum ekki sett lög sem banna útlendingum að fara úr landi með peningana sína.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði áðan að það hefði enginn stjórnað okkur betur en við sjálf. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum. Það er full ástæða til að minna hv. þingmann á það hvert við stjórnuðum okkur hinn 6. október 2008. Það er væntanlega ekki orðið svo langt síðan við rötuðum í þær skelfilegu ógöngur og hv. þingmaður er væntanlega ekki búinn að gleyma því að það er algerlega óleyst mál. Það eina sem gerir það að verkum að við erum ekki í enn verri málum en við vorum þá er sú að við höfum bannað mönnum að fara úr landi með þá fjármuni sem þeir eiga og með því brotið gegn grundvallaratriðum í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, í mikilvægasta viðskiptasamningi okkar. Að fjalla um það þannig að við höfum ekki krefjandi vandamál við að eiga hér á Íslandi sem við þurfum að leita lausna á í samstarfi við helstu vinaþjóðir okkar og viðskiptaþjóðir er auðvitað aðeins að neita að horfast í augu við veruleikann.

Það er líka ánægjulegt við skýrsluna sem er komin fram að hún áréttar það sem allir máttu í sjálfu sér vita, að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa engar breytingar orðið varðandi aðildarumsókn Íslands nema ef vera skyldi til batnaðar. Ef eitthvað er er staða okkar til þess að ná samningum við Evrópusambandið betri nú en hún var þegar hæstv. núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að á síðasta kjörtímabili tókst ekki að opna sjávarútvegskaflann af ýmsum ástæðum, andstöðu fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar kannski að hluta, að einhverju leyti vegna þeirrar endurskoðunar sem fram fór á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sjálfs, en síðast en ekki síst vegna þess að hér synti inn í lögsögu Íslands fiskur sem heitir makríll og upp af því spratt milliríkjdeila á milli okkar og Evrópusambandsins um þann fiskstofn og augljóst að ekki var hægt að hefja viðræður um sjávarútvegsmál fyrr en lausn væri fengin í því. Nú er það þó orðið þannig að það er nokkuð gagnkvæmur skilningur á milli okkar og Evrópusambandsins um það hvernig rétt væri að leysa úr því máli og það er við aðra að deila í því heldur en Evrópusambandið. Þess vegna er greiðari leið til að setja fram samningsmarkmiðin í sjávarútvegi og fá fram þær sérlausnir sem Evrópusambandið hefur í huga fyrir Ísland í þessu meginhagsmunamáli Íslendinga.

Það er út af fyrir sig fleira sem er heldur jákvætt í skýrslunni. Þær áhyggjur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson lýsti áðan um þróunina í átt til sambandsríkis held ég að séu meira og minna teknar út af borðinu með skýrslunni. Það er náttúrlega farið yfir að Evrópusambandið er ekki að þróast í átt til þess að verða að einu ríki, heldur er það ríkjasamband og samstarf þjóðríkja sem stjórna sér sjálf.

Þegar maður horfir á þá mynd að ekkert hefur breyst í Evrópumálum frá síðustu alþingiskosningum, nema ef vera skyldi til batnaðar, verður svikatillaga Sjálfstæðisflokksins frá því á föstudaginn var enn þá meira himinhrópandi. Hvernig í ósköpunum geta allir forustumenn eins stjórnmálaflokks, flokks hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssonar — allir — lofað því á opinberum vettvangi, kjósendum sínum og íslensku þjóðinni, að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar, um stærstu stefnumarkandi ákvörðunina, um það hvert Ísland á að stefna til framtíðar, fara í gegnum kosningar, gera stjórnarsáttmála þar sem slík þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki útilokuð, sjá stöðuna til að ljúka viðræðunum aðeins batna frá því sem var þegar þær yfirlýsingar voru gefnar, og koma síðan innan við einu ári síðar algerlega ótilneyddir og svíkja kosningaloforðið? Við látum það jafnvel vera ef forustumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki getað náð því fram að fá þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem þeir lofuðu fyrir kosningar, slík staða getur auðvitað komið upp í samsteypustjórnum. Á því er hægt að hafa skilning. Það væri líka hægt að hafa skilning á því ef þeir hefðu ekki vald á málinu, ef það væri í annarra höndum eða skorti fjármuni til, eða einhver önnur nauðsyn kæmi í veg fyrir það.

En sú svikatillaga að ganga þvert gegn loforðum sínum og alla leiðina yfir í að afturkalla umsóknina sem lofað var þjóðaratkvæðagreiðslu um án þess að nokkur nauðsyn knýi menn til, það er einhver (Forseti hringir.) mesta ósvífni sem menn hafa sýnt í íslenskum stjórnmálum um langa hríð.