143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Komið hefur skýrt fram óánægja hjá formönnum stjórnarandstöðunnar og öðrum hv. þingmönnum undir þessum lið með að nefndavikan skyldi ekki hafa verið notuð til að leita sátta og koma ró á þinghaldið. Vikan þar á undan hafði verið mjög erfið og satt að segja gerðu allir í stjórnarandstöðunni ráð fyrir því að haldnir yrðu sáttafundir eins og gert var ráð fyrir í samkomulaginu. En ekki neitt heyrðist frá þinginu, hvorki frá forseta né hæstv. forsætisráðherra. Þótt ekki hefði verið nema bara eitt símtal á formennina til að láta þá vita af hverju ekki var hægt að funda hefði það strax verið til að bæta samskiptin.

En ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa lagt til að hlé verði gert á þingfundi eða þá að önnur mál verði tekin fram fyrir. Sjötta málið á dagskrá er mikilvægt (Forseti hringir.) og hægt er að taka það fram fyrir á meðan verið er að leita sátta í þessu máli.