143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé óhætt að segja að við séum að glíma við nokkuð sem mætti kalla slæma stemningu á vinnustað. Það er ekki að ástæðulausu. Samkomulag sem er gert á þessum vinnustað er ekki virt. Fólk sem er lausnamiðað í hugsun og með sáttavilja er virt að vettugi, það er ekkert við það talað. Svo koma fundarboð með þeim hætti sem við sáum áðan, ótímasett, fyrirvaralaus, án þess að maður viti nokkuð um fund sem maður er búinn að vera að bíða eftir í ellefu daga. Þetta er allt saman mjög slæmt.

Gott og vel. Ég ítreka sáttavilja Bjartrar framtíðar í þessu máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að ná einhverri lendingu, en ég vil líka segja hverjar væntingar mínar eru þá til þessa fundar sem fer fram einhvern tímann á eftir. Ég býst við því að það komi eitthvert innlegg frá formönnum stjórnarflokkanna, einhver tillaga en ekki bara að formennirnir sitji þarna og ætli sér ekki að gera neitt til að reyna að leysa þessi mál.

Ég tek undir þær kröfur að á meðan þessi mikilvægi fundur (Forseti hringir.) — sem ég lít svo á að sé mikilvægur — fer fram hefjist auðvitað ekki umræður (Forseti hringir.) um þetta mikla deilumál í þingsal.