143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

um fundarstjórn.

[18:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að hann teldi ekkert samkomulag liggja fyrir og raunar mátti lesa það úr orðum hans að hann teldi ekki ástæðu til þess að aðkoma hans væri nokkur að lausn eða niðurstöðu málsins þrátt fyrir það samkomulag sem kynnt var á forsetastóli fyrir ellefu dögum. Þá vil ég spyrja, af því að mér finnst mikilvægt að þingið sé upplýst um það: Hvað var lagt á borðið á þessum fundi? Hvað var það sem hæstv. forsætisráðherra kom með til að leysa málið? Hvað var það sem hann taldi að væri til þess fallið að færa þetta mál á næsta stað? Hvað var það sem hann taldi að hann gæti gert til þess að styðja Alþingi Íslendinga, til þess að halda reisn sinni og til þess að halda áfram efnislegri umræðu um þetta mál?

Var hann með einhverja tillögu til lausnar, virðulegur forseti, eða var þessi fundur sýndarmennska frá upphafi?