143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Gjaldeyrishöft há okkur ekki mikið í hversdagslífinu, en nýjar upplýsingar Viðskiptaráðs sýna að kostnaður okkar við þau er 80 milljarðar kr. eða hátt í 1 milljón kr. á hvert heimili í landinu og vex með hverjum degi. Þessi kostnaður verður til vegna þess að heimurinn hefur ekki trú á efnahagsáætlun Íslands. Þess vegna höfum við orðið að setja lög sem banna fólki að fara með peningana sína úr landi. Það leiðir til þess að hér verður ekki fjárfesting sem ella yrði. Það verður til þess að hér verða ekki til útflutningsviðskipti og verðmæti sem ella yrðu og á hverjum degi minnkar samkeppnishæfni okkar og lífskjör okkar rýrna.

Erlendar skuldir okkar eru miklar og fram undan er endurfjármögnun stórs hluta þeirra. Við þær aðstæður hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að slíta viðræðum okkar við önnur ríki í Evrópu sem búa þó við efnahagslegt sjálfstæði. Það verður sannarlega ekki til þess að létta okkur það að lyfta gjaldeyrishöftunum og endurheimta efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, þvert á móti. Það er hættuspil og þessar tölur frá Viðskiptaráði undirstrika hversu grafalvarlegir hlutir eru á dagskrá Alþingis þessa dagana og í hverja tvísýnu verið er að tefla framtíð okkar.