143. löggjafarþing — 72. fundur,  11. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru auðvitað hreinar eftiráskýringar. Þeirra var hvergi getið í greinargerð og heldur ekki í aðdraganda málsins yfir höfuð. Óheiðarleikinn er allur ríkisstjórnarinnar. Afstaða Evrópusambandsins í þessu liggur alveg fyrir. Það er ekkert af þeirra hálfu sem kallar á slit viðræðnanna. Hæstv. utanríkisráðherra lét meira að segja vinna fyrir sig sérstakt lögfræðiálit síðasta sumar, ef ég man rétt, um að hann gæti bara einn og sjálfur hætt þessum viðræðum og þyrfti ekkert samþykki Alþingis til. Öllum er ljóst að viðræðurnar gætu verið áfram í hléi ef það væri vilji þessara flokka, ef Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki efna kosningaloforð sín um að fara með framhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef Sjálfstæðisflokkurinn, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt, bað ekki einu sinni um það í stjórnarmyndunarviðræðum að fá þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hann lofaði. Og ef menn vilja ekki snerta á málinu þetta kjörtímabil þá gátu viðræðurnar náttúrlega verið áfram í hléi.

Það er alveg ljóst hvað vakir fyrir forustumönnum ríkisstjórnarinnar með þessum tillöguflutningi. Fyrir þeim vakir að spilla samstarfi okkar við Evrópusambandið og spilla því með þeim hætti að ekki bara á þessu kjörtímabili heldur á mörgum næstu kjörtímabilum verði erfitt eða ómögulegt að taka viðræður upp aftur, jafnvel þó að þá verði vilji til þess í þinginu eða vilji til þess hjá þjóðinni að ljúka viðræðum og fá þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna. Þá verði með skemmdarverkastarfsemi á þessu þingi búið að eyðileggja þann möguleika.