143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessi svör. Nei, auðvitað er ekki ómöguleiki í neinu í sjálfu sér ef út í það er farið, það snýst bara um það hvernig við tökum á því sem við teljum erfitt að framkvæma eða framfylgja.

Vissulega er þetta sáttatillaga, þetta er málamiðlun sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram. Þetta er ekki endilega óskastaða, hvorki fyrir okkur né aðra, en það þarf alltaf að mætast einhvers staðar. Ég hefði viljað klára samningsumleitanir eða viðræður og leggja samning á borðið fyrir þjóðina, að hún fengi að kjósa um það. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin leggi þá tillögu sem hér er til umræðu á borðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ég er ekki viss um að það sé endilega affarasælast að gera það. Tillagan sem slík er ekki endilega það sem við vildum spyrja um, við getum svo rætt og deilt um það um hvað við viljum spyrja.

Samfylkingin er ESB-flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð telst ekki vera ESB-flokkur. Ég hef nefnt það fyrir minn flokk að við eigum innan borðs fólk sem vill ganga í Evrópusambandið, fólk sem vill fá að sjá samning. Skoðanir eru því skiptar, eins og hér hefur komið fram, í öllum flokkum og kannski engin ein niðurstaða rétt í því. Ef við stæðum frammi fyrir því að þjóðin mundi samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar, ef hún væri borin undir þjóðina eins og hún lítur út núna, þ.e. að slíta viðræðum, hvað finnst Samfylkingunni að við ættum að gera í framhaldinu? Sér Samfylkingin fyrir sér eitthvert annað plan ef þessi tillaga ríkisstjórnarinnar yrði samþykkt?