143. löggjafarþing — 73. fundur,  12. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:30]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er mér heiður að fá að ávarpa hið háa Alþingi sem er hér saman komið, ekki síst á þeirri ögurstundu sem við stöndum frammi fyrir nú, að ræða um hvort við skulum rjúfa umsóknarferli Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Við þurfum að skoða söguna í samhengi ef nota á hana til að styðja þann málstað sem mælt er fyrir. Ekki er fögur sagan sem Austur-Evrópa getur sagt okkur en ein ástæða þess að Rúmenía, Pólland og Búlgaría gengu í Evrópusambandið á sínum tíma var að það var skárri kostur en hinn valmöguleikinn, að gerast höll undir Rússland.

Evrópusambandið veitti þessum löndum fjármagn í því skyni að byggja upp innviði, styrkja lýðræði og stuðla að friði í þessum heimshluta. Sem dæmi um afleiðingar þessa má skoða muninn á Póllandi og Úkraínu.

Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og síðan þá hefur hagvöxtur og velferð íbúa þar í landi aukist verulega. Árið 1990 voru Úkraína og Pólland með svipaðan hagvöxt og efnahag og lífsgæði voru sambærileg. Í dag, 24 árum síðar, hefur hagvöxtur Póllands þrefaldast og lífsgæði sömuleiðis á meðan lífsgæðum í Úkraínu hefur lítið fleygt fram. Í dag er landið umsetið rússnesku hervaldi og spillingin hefur tært grundvallarstoðir samfélagsins svo alvarlega að þar ríkir upplausn og landið er á barmi borgarastyrjaldar og það í annað sinn á tíu árum.

Pólland er hins vegar orðið mikilvægt afl í alþjóðastjórnmálum og áhrifamikið innan Evrópusambandsins. Það hefur rödd. Þar ríkir friður og framþróun. Þeir hafa tekið þátt í baráttunni fyrir tjáningarfrelsinu gegn ACTA-frumvarpinu á Evrópuþinginu og þeir eru eitt örfárra ríkja sem reyndist fært um að lána Íslendingum gjaldeyri í kjölfar efnahagshrunsins.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ræða ágæti Evrópusambandsins og áhrif þess á aðildarríkin hljótum við að þurfa að horfa á heildarsamhengið, hvað sambandið hefur gert fyrir lífsstíl íbúa sinna, hvað leiddi til stofnunar þess og hvernig heimsálfan hefur breyst síðan þá í friðsælt og vel megandi alþjóðasamfélag. Sjálf hef ég margt og mikið að athuga við Evrópusambandið og þar má sannarlega margt betur fara. Það er hins vegar firring að hafa andúð á tilvist Evrópusambandsins og öllu því sem það hefur í för með sér. Það er firring vegna þess að andúð blindar og hindrar viti bornar rökræður. Hún kemur í veg fyrir að við, þingið og þjóðin, fáum þær upplýsingar sem við þurfum á að halda til að geta tekið efnislega afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu.

Halda á umræðunni áfram í óupplýstum skotgröfum dómdagsspámanna, getgátna og digurbarkalegra yfirlýsinga andstæðra fylkinga og flokka í stað þess að leggja hana fram í upplýstum farvegi til þjóðarinnar. Það virðist ekki skipta máli hvaða rökum er beitt, hvaða staðreyndir eru dregnar fram eða hvernig eðli og störf Evrópusambandsins eru útskýrð. Andúðin, tortryggnin og hrokinn í garð Evrópusambandsins ristir svo djúpt meðal forsprakka ríkisstjórnarinnar að henni verður vart haggað. Hún byggir ekki á rökum heldur tilfinningum, þjóðerniskennd, þröngsýni og ótta, á fánahyllingu og ást á íslenskri glímu. Það virðist engu máli skipta hvað við segjum eða gerum, hversu margir mæta niður á Austurvöll til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu dag eftir dag, hversu stór hluti þjóðarinnar skrifar undir kröfu þess efnis, hversu oft við bendum á ítrekuð loforð stjórnarflokkanna um hana. Andúð hæstv. ríkisstjórnar yfirgnæfir það allt. Stjórnarliðar eru búnir að gera upp hug sinn um hvað þeir vilja gera og þá er þeim sama um eigin loforð og um vilja þjóðarinnar.

Sífellt er rifist um það hvort varanlegar eða tímabundnar sérlausnir eða undanþágur geti fengist í samningum við Evrópusambandið með sérstakri áherslu á landbúnað og sjávarútveg. Svo virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir geri sér ekki grein fyrir því að aðild að Evrópusambandinu og reyndar Evrópusambandið sjálft er ævarandi samningsferli í stöðugri þróun en ekki bundin einum 100 þús. blaðsíðna óbreytanlegum reglupakka. Þetta hafa stjórnarherrar reyndar verið duglegir við að benda á, þeir vilja ekki ganga inn í sambandið sem er í stöðugri þróun. Ef þeir segja við Evrópusambandið að við viljum varanlegar undanþágur er skiljanlegt að Evrópusambandið lyfti brúnum. Það er ekki tilbúið að skuldbinda sig um tiltekið fyrirkomulag um aldur og ævi. Hins vegar eru loforð loforð og Evrópusambandið skrifar ekki undir eitthvað sem það ætlar sér ekki að standa við eða hefur enga trú á, ólíkt hæstv. forsætisráðherra.

Ég hef staðið hér á Austurvelli ásamt fleiri þúsund manns í því skyni að biðla til hæstv. forsætisráðherra um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna langar mig að nota þetta tækifæri til að spyrja: Hversu margir þurfa að mæta á Austurvöll? Hversu fast þurfum við að berja á gjánni til að hann sjái sér fært að taka eyrnatappana, stútfulla af andúð á Evrópusambandinu, úr eyrunum og hlusta, heyra það sem þjóðin hefur að segja? Við viljum kjósa og við vitum alveg hvað það þýðir. Við viljum kjósa vegna þess að fleiri hagsmunir eru í húfi en einvörðungu hæstv. ríkisstjórnar. Margir stúdentar sjá ekki framtíð í þessu landi þar sem þröng sultaról þeirra er þrengd sem aldrei fyrr. Ég sem stúdent stend hér og ég sé ekki framtíð á Íslandi ef stjórna á landinu svona.

Við horfum fram á atgervisflótta vegna þess að kjör fólks hér á landi eru einfaldlega ekki sambærileg því sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hjúkrunarfræðingar og læknar, verkfræðingar og annað hámenntað fólk flýr land, væntanlega af því að það var ekki búið að heyra um hæstvirta áburðarverksmiðju. Fyrirtæki sem jafnvel skila dágóðum hagnaði sjá sér varla fært að starfa hér á landi vegna gjaldeyrishafta, óstöðugleika og brigðulla stjórnarhátta. Hér ríkir engin sátt.

Ef hæstv. forsætisráðherra heldur að fólkið hér fyrir utan, sem er saman komið og lemur í grindverkið, sé að fagna starfi hans þá hefur hann rangt fyrir sér. Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar, um að notfæra sér vald sitt til þess að slíta viðræðum við Evrópusambandið, er andstætt því sem lofað var fyrir kosningar og það er á skjön við vilja meiri hluta þjóðarinnar sem vill kosningar varðandi áframhald aðildarviðræðna. Við, þjóðin, viljum kjósa ef á annað borð á að taka ákvörðun um þetta mál.