143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna.

[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tafarlaust, sagði hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson í vefriti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í janúar 2013, að hann teldi hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins en vegna þess hversu miklar deilur væru um málið vildi hann tafarlausa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna. Þetta sagði hæstv. heilbrigðisráðherra kjósendum sínum í aðdraganda kosninga og það er rétt að kosningaloforðin hafa ekki enn verið svikin en ef þingsályktunartillagan hér verður afgreidd og samþykkt á þingi eru það skýr svik þessara loforða.

Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra aftur: Er hann tilbúinn að lýsa því yfir að þjóðin eigi að koma að málinu, það eigi ekki að svíkja loforðin vegna þess að í dag, einmitt í dag, er mikilvægt að forustumaður í íslenskum stjórnmálum stígi fram og segi að við Íslendingar þurfum á því að halda að standa saman nú þegar við erum einangruð í makríldeilunni, að við þurfum að setja niður deilur hér á þessum vettvangi, draga til baka þann ófrið sem hér var skapaður og standa saman um íslenska hagsmuni á alþjóðavettvangi?