143. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[12:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. utanríkismálanefnd hefur ekki enn þá gefið sér tóm frá mikilvægum verkefnum sínum, eins og t.d. að rannsaka hugardjúp Garrís Kasparovs heimsmeistara í skák, til að ræða þau mál. Ég get á þessari stundu ekkert sagt um það hvar einhvers konar sátt kynni að liggja í loftinu. Það er ekkert ómögulegt í þessum heimi. (Gripið fram í: Hvað segirðu?) Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að æskilegast sé að þjóðin fái sem fyrst að kjósa um framhald viðræðna. Ég er eins og obbi þjóðarinnar mjög forvitinn um samningana. Ég er auðvitað eldheitur Evrópusinni, en ég vil ekki aðild út á hvað sem er. Ég er einfaldlega einn af þeim sem þurfa að kíkja í pakkann. Ég hef aldrei lokið nokkrum samningi, en mörgum lokið um ævina, án þess að bíða þangað til ég sé endaafurðina til þess að gera almennilega upp hug minn um hvort hún sé ásættanleg.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort þeir þættir sem hún ræddi verði ræddir í nefndinni hygg ég að ég megi segja já. Það hefur verið rætt að þetta (Forseti hringir.) sé einn af þeim þáttum sem við þurfum að rannsaka af því að þá er hvergi að finna í núverandi skýrslu. Ég veit að hinn góði formaður með aðstoð hæstv. forseta mun sjá til þess að við náum því fram að fá að veiða fram upplýsingar (Forseti hringir.) sem því tengjast. Ég bið hæstv. forseta afsökunar á því að reyna svona á þolrif hans.