143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að hafa þingfund hér í kvöld enda greinilegt að margir eiga enn margt ósagt í umræðunni. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að sá sem hér stendur muni ekki taka þátt þó að hann hafi ekki gert það fram til þessa. Ég verð að segja að mér finnst að menn eigi nú að reyna að hafa umræðuna á aðeins hærra plani en svo að vera með yfirlýsingar um að menn þori ekki í umræðuna. Mér finnst að við þurfum aðeins að (Gripið fram í.) lyfta okkur upp af því plani að þeir sem ekki hafi enn tekið til máls hafi ekki þorað að vera hér.

Í minni fyrri ræðu hér áðan um þessa atkvæðagreiðslu tók ég það eingöngu fram að menn geta ekki gert kröfu til þess að öll ríkisstjórnin sitji og hlusti þegar þingmenn eru að tala. Það var það eina sem ég sagði. Ég sagði ekki að allir ráðherrar ættu ávallt að vera fjarverandi en þannig var það greinilega skilið hér í salnum. Og þetta er auðvitað á sama plani og hið fyrrnefnda.

Ég mun taka til máls í þessari umræðu, það þarf enginn að hafa áhyggjur af því, (KLM: Hvað með hina ráðherrana?) og það (Forseti hringir.) hafa líka fjölmargir sjálfstæðismenn nú þegar gert.