143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði gegn tillögu um að lengja þingfund vegna þess að ég býst ekki við því að lengri þingfundur muni koma hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans upp í pontu til þess að ræða við okkur efnislega um það hvers vegna það þarf að slíta viðræðum við Evrópusambandið frekar en að hafa hlé á þeim. Það er lykilspurningin hérna, hún hefur ekki verið rökstudd með neinu sem heldur vatni. Það eru vonbrigði að um leið og upp kemur efnisleg umræða frá hv. stjórnarþingmönnum sem er sjaldan og stutt í einu, að þá nær samstundis eru allir stjórnarliðar farnir út úr þingsal.

Ef við ræddum þetta efnislega, þennan eina punkt, hvers vegna eigi að slíta frekar en að hafa hlé, og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans tækju meiri þátt í þeirri umræðu — ég verð nú að hrósa hv. 4. þm. Suðurk. fyrir að (Forseti hringir.) taka þátt hérna seinni partinn — gætum við lokið (Forseti hringir.) umræðunni. En ég trúi því ekki að við gerum það í kvöld, (Forseti hringir.) og þess vegna greiði ég atkvæði gegn tillögunni.