143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en ég heyrði samt ekki nein sérstök rök. Það er ekki meirihlutavilji á þinginu núna fyrir því að ganga í ESB, ég sé ekki hvernig það eru rök fyrir því að slíta viðræðunum frekar en einfaldlega að gera hlé. Þannig getum við séð til á næsta kjörtímabili eða jafnvel þarnæsta hvort sá vilji myndist. Við vitum ekki hvernig Evrópusambandið á eftir að þróast, við sjáum það ekki nákvæmlega fyrir hvernig Ísland á eftir að þróast, við vitum ekki hvað gerist í næstu kosningum.

Það er bara þannig og þess vegna skil ég ekki hvernig þessi rök eiga að styðja það að nú beri að slíta frekar en einfaldlega að gera hlé. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að koma pínupons til móts við fólk, burt séð frá spurningunni um þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég ætti reyndar sem pírati að vera að spyrja um.

En meirihlutavilji þjóðarinnar er mjög skýr, það er gnægð undirskrifta, það er nóg af mótmælum dag eftir dag. Þjóðarviljinn er skýr um að halda áfram viðræðum eða í það minnsta að greiða atkvæði um það. Mér finnst einhvern veginn (Forseti hringir.) að það allra minnsta sem sé hægt að gera sé að eyðileggja ekki allt ferlið. Ég skil það ekki enn þá og inni hæstv. ráðherra aftur eftir því: Eru einhver fleiri rök fyrir því að slíta frekar en að gera hlé?