143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[22:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma og skýra okkur frá þessu sem hann hefur, eins og hann segir sjálfur, sagt fyrr. Hefur það verið rætt meðal ráðherra í ríkisstjórninni? Hvað mun fulltrúi Framsóknarflokksins gera í þeirri nefnd? Mun hann leggja fram breytingu á tillögunni? Er hann tilbúinn til þess? Málið snýst um það, virðulegi forseti.

Hvort tillagan sé gerræðisleg eða ekki, þá getur stjórnartillaga náttúrlega verið gerræðisleg og þessi tillaga var gerræðisleg vegna þess að lögð er skýrsla fyrir þingið sem þingið á að ræða til að næsti leikur hefjist og búið er að ræða hana í nokkra klukkutíma þegar hæstv. ráðherra leggur fram tillögu um að slíta viðræðum, af því að fólk hafi hvort sem er mótaða skoðun um hvort það vill fara í Evrópusambandið eða ekki. Af hverju var hann þá að láta búa til þessa skýrslu, virðulegi forseti? Það er gerræðið í málinu, hæstv. utanríkisráðherra.