143. löggjafarþing — 75. fundur,  14. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[02:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, það er engin ástæða fyrir okkur í minni hlutanum til að vera ekki full sjálfstrausts. Við erum heldur ekki ein, 50 þús. kjósendur deila áhyggjum okkar og hafa undirritað áskorun til ríkisstjórnarinnar. Þúsundir manna hafa verið úti á Austurvelli og við höfum náð árangri.

Hv. þingmaður nefndi náttúruverndarlögin. Ég nefni líka fjárlagavinnuna. Þótt okkur hafi ekki tekist að breyta stefnu ríkisstjórnarinnar náðum við þó að semja inn desemberuppbót fyrir atvinnulausa og semja þjóðina frá legugjöldum á sjúkrahús. Það er alveg ótrúlegt hvað hér hefur dunið yfir.

Sjálfstraust má ekki byggja á innantómu sjálfshóli, það þarf líka að byggja á því að maður trúi því að verkefnið sé framkvæmanlegt og mér finnst í þessu máli fátt gefa til kynna að það sé ástæða til að treysta þeim sem fara með forræðið á málinu. Ég endurtek að áður en fyrri umr. um þetta mál lýkur hér hefði ég talið heillavænlegt að forseti settist niður með þingflokksformönnum eða formönnum flokka og færi yfir það þannig að það væri sameiginlegur skilningur á því hvernig á að meðhöndla þetta mál og þau tvö önnur mál sem jafnframt á að fjalla um (Forseti hringir.) samhliða í nefndinni ef (Forseti hringir.) af verður.