143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

heilbrigðistryggingar.

[14:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að andmæla því að þessi umræða eigi ekki erindi hingað í salinn því að það liggur fyrir að sá sem skrifar greinina, sem ég gaf mér tíma til að lesa, er formaður ráðgjafaráðs sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði og maður hlýtur að sjálfsögðu að lesa slíkar greinar út frá þeim embættum sem fólk er skipað til af hálfu ráðherra og ríkisstjórnar.

Þetta er mjög athyglisverð yfirlýsing af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og sýnir það greinilega hvaða stefnumótun er í undirbúningi þó að ekki eigi að ganga eins lagt og formaður ráðgjafaráðsins leggur upp með, að hverfa hreinlega frá opinberum heilbrigðistryggingum því að þær auki í raun neyslu og heilbrigðisþjónustu, eins og þar er komist að orði, þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á í öllum samanburði hjá OECD að það félagslega heilbrigðiskerfi sem við rekum hér er ekki bara hagkvæmast heldur líka best fyrir þá sem þurfa að nýta þjónustuna út frá öllum lýðheilsulegum mælikvörðum. Þegar kemur að því að fara að auka hlut einkaaðila hér eins og gert hafi verið í Svíþjóð, sem hefur verið undir grimmri hægri stjórn undanfarin tvö kjörtímabil sem sést hefur einmitt á einkarekstri bæði í heilbrigðis- og menntakerfinu þannig að það þýðir ekki lengur að tala um það sem hið fyrirheitna land sósíaldemókrata, (Forseti hringir.) þá sjáum við greinilega hvert ríkisstjórn Íslands stefnir. Það á að fara (Forseti hringir.) yfir í óhagkvæmara kerfi, (Forseti hringir.) auka hlut einkaaðila sem hefur sýnt sig í (Forseti hringir.) rannsóknum að er óhagkvæmara bæði hvað varðar efnahag og þjónustu.