143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið hér til umræðu og vil gjarnan fara yfir það og ýmsa þætti þess.

Í fyrsta lagi verður að segjast að framganga ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana um síðustu áramót var með eindæmum léleg. Það frumvarp sem hér er loksins verið að mæla fyrir breytir litlu, það kemur seint og það er lélegt.

Í framsöguræðu hæstv. ráðherra og í andsvörum við hann var fjallað um það hversu sérkennilegt það er að koma hér fram með lækkanir á þegar ákveðnum hækkunum, sem þó gilda bara um sumar gjaldskrárhækkanir hins opinbera.

Fyrir liggur að af hálfu sveitarfélaga í landinu var tekið með allt öðrum hætti á en hjá ríkisstjórninni. Með myndarlegum hætti var kveðið á um það af hálfu Reykjavíkurborgar að gjaldskrár yrðu ekki hækkaðar, þær yrðu frystar. Mörg sveitarfélög fylgdu því fordæmi vítt og breitt um land til að reyna að halda aftur af verðbólguþrýstingi og gera mögulega skynsamlega kjarasamninga. En ríkisstjórnin, sem átti mest undir því að þessi tilraun tækist, treysti sér ekki til að spila með. Hún skarst þvert á móti úr leik og boðaði það eitt að draga hluta af hækkunum til baka. Það lá alveg ljóst fyrir að 3% hækkunin, sem kveðið var á um um síðustu áramót á gjaldskránum, var umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans og forsendur fjárlagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir að áfram yrði haldið að skrúfa upp verðbólguþrýstinginn í landinu af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það litla og lélega frumvarp sem hér er komið fram, þó að það sé skref í rétta átt, kemur fram á alveg ótrúlegum tíma, og maður verður að velta fyrir sér tímasetningunum í þessu máli öllu. Þetta mál hefur legið lengi, vikum saman, í þinginu án þess að ríkisstjórnin hafi hirt um að gera það að forgangsmáli. Tækifæri voru til þess að mæla fyrir því, koma því til nefndar, það hefur ekki verið gert. Það að frumvarp um gjaldskrárhækkanir á þessu ári skuli koma til 1. umr. þegar langt er liðið á marsmánuð og fjórðungur ársins að verða liðinn sýnir áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á að koma fram af myndugleik í að halda aftur af verðbólguskrúfunni.

Annað dæmi um það var það fráleita sleifarlag ríkisstjórnarinnar að bréf fjármálaráðherrans til opinberra stofnana, með hvatningu um að þær héldu aftur af sér í gjaldskrárhækkunum, var sent daginn eftir að flest verkalýðsfélög voru búin að fella kjarasamninginn í janúarmánuði. Það var með öðrum orðum ekki forgangsverkefni fjármálaráðherrans að senda opinberum stofnunum bréf, sem flestir hefðu talið eðlilegt að færi í upphafi janúarmánaðar. Nei, það var ekki einu sinni sent fyrr en búið var að fella kjarasamninginn í þeim verkalýðsfélögum þar sem hann var felldur. Það er alveg ljóst að þetta áhugaleysi ríkisstjórnarinnar um aðhald í verðlagsmálum og þessar hækkanir á gjaldskrám ásamt með sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í því að mæta lágtekjufólki í einhverju hvað varðar skattlagningu rétt fyrir jól voru lykilþættir í því að samningar voru felldir og framhald mála var sett í uppnám.

Þannig sögðu t.d. forustumenn verkalýðshreyfingarinnar — ég vitna í Björn Snæbjörnsson, formann Einingar-Iðju og Starfsgreinasambandsins, sem sagði, með leyfi forseta:

„Við vitum að fólk var mjög reitt út í ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki hækkað persónuafsláttinn þegar hún hafði möguleika á því. Það er eitt af þeim atriðum sem ég heyrði mesta gagnrýni á. Þeir sem voru allra tekjulægstir fengu ekkert út úr þessum skattamálum.“

Ég vitna líka í Sigurð Bessason, talsmann Flóabandalagsins, formann Eflingar, sem segir að ýmislegt hafi vantað frá ríkisstjórninni, sem snúi til dæmis að húsnæðismálum og skattamálum. Kallað hafi verið eftir lækkun á lægsta skattþrepinu og meiri hækkun persónuafsláttar. Ríkið hafi ekki viljað fallast á það. Þegar verið sé að horfa til stöðugleika og lækkunar verðlags skipti máli að þetta komi allt saman.

Það blasir líka við að þegar horft er á svarta lista Alþýðusambandsins, sem Alþýðusambandið tók saman í janúarmánuði yfir fyrirtæki og stofnanir sem neituðu að draga verðhækkanir til baka, þá var helmingurinn í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þegar allt þetta er dregið saman, ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fara ekki að fordæmi sveitarfélaganna um að frysta gjaldskrár, ákvörðunin um að skrifa ekki bréf til opinberra stofnana með beiðni um að halda aftur af gjaldskrám fyrr en eftir að búið var að fella kjarasamningana og ákvarðanir um að hækka ýmis önnur gjöld, allt ber þetta að sama brunni — áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á því að tryggja verðstöðugleika er algjört og það kom ofan í það sem við sáum hér fyrir jól þegar ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína til að koma í veg fyrir að lágtekjufólk fengi nokkuð úr skattkerfisbreytingunum hér á síðustu stundum þingsins þegar okkur tókst að hafa vit fyrir ríkisstjórninni og koma í veg fyrir að allar skattalækkanirnar nýttust fyrst og fremst hátekjufólki.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lenti í miklum vanda áðan þegar hann fór að rökstyðja af hverju verið væri að lækka hér gjöld á tóbak og eldsneyti en ekki aðrar gjaldskrár sem hafa hækkað. Það þýðir ekkert að koma hér fyrir Alþingi sem fjármálaráðherra og segja að sum önnur gjöld hafi verið óbreytt í fjárlagafrumvarpi og að þau gjöld sem hér var vitnað til, um hækkanir á ýmsum gjaldskrám, væri ekki í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Það er auðvitað verkefni fjármálaráðherra að afla fjár í ríkisreksturinn með eins skilvirkum og skynsamlegum hætti og mögulegt er, og að létta gjöldum af þeim sem síst ættu að vera að borga þau. Það er augljóslega mjög gölluð niðurstaða ef gjaldtaka á öndunarvélar eykst en gjaldtaka á tóbak minnkar. Það hljóta allir að geta verið sammála um það. Hæstv. ráðherra er í lófa lagið að stilla hluti af þannig að niðurstaðan verði ekki svo bersýnilega ósanngjörn.

Ég ætla að taka önnur dæmi um gjöld sem hér hafa lítið verið rædd sem þó eru greind í fjárlagafrumvarpinu. Það er hækkun komugjalda í heilsugæslu. Þær hækkanir dundu yfir þjóðina hér í byrjun árs og voru stór hluti af því að grafa undan tiltrú á að ríkisstjórnin meinti nokkurn skapaðan hlut með því að vilja halda aftur af verðlagshækkunum. Almenn komugjöld á heilsugæslustöðvar hækka um 20%, komugjöld utan dagvinnutíma hækka um 19,2%, virðulegur forseti. Greiðsla fyrir vitjun lækna hækkaði um 21,4% á dagvinnutíma og 18,4% utan dagvinnutíma. Komugjöld fyrir heimsóknir til samningsbundinna sérfræðilækna og göngudeildir hækka um 11,1% en um 12,5%, meira, hjá öldruðum og öryrkjum. Koma á slysadeild hækkaði um 5,4% en um 6,7%, meira, hjá öldruðum og öryrkjum. Lægsta hækkunin var 4,6% fyrir kransæða- og hjartaþræðingu. Og upphæðin sem fólk þarf að borga ef það fær afsláttarkort hækkaði um síðustu áramót um liðlega 4%.

Allt eru þetta gjöld sem greind eru í fjárlögum. Það er alveg rétt að þau skapa í mörgum tilvikum sértekjur hjá viðkomandi stofnunum, en hæstv. fjármálaráðherra getur ekki skotið sér undan ábyrgð á því að þarna er verið að auka gjaldtöku á veikt fólk langt umfram verðlagsforsendur. Og það skýtur mjög skökku við að leggja fram frumvarp um lækkun þessara almennu gjalda á tóbakið og nú áfengisgjald eða aðra slíka þætti, eldsneytisgjöld, en snerta ekki á þessu.

Hæstv. ráðherra getur líka flutt hér einhverjar ræður um að þessi gjöld hafi mest verðlagsáhrif, það getur vel verið, þau hafi mest verðlagsáhrif. En hin gjöldin, sem ég var hér að nefna, komugjöld í heilsugæslur, hækkanir á komugjöldum fyrir öryrkja og aldraða umfram það sem gerist fyrir fullfrískt fólk, leggjast mjög þungt á það fólk. Það hlýtur að vera viðfangsefnið að koma í veg fyrir slíkt. Maður sem stendur með annan fót í vatni og hinn í eldi, hann hefur það ekkert að meðaltali gott, og það er verkefni hæstv. fjármálaráðherra að stilla þessa hluti af. Það er alveg hægt að færa fyrir því efnisleg rök jafnvel að ef menn vilja flytja til byrðar í þessum efnum sé ástæða til að hlífa sumum gjöldum og taka peningana inn á öðrum.

Ég geri athugasemdir við að ríkisstjórnin skuli í fyrsta lagi ekki hafa farið að skýru fordæmi sveitarfélaganna sem ákváðu að frysta gjaldskrár. Það hefði verið hinn eðlilegi framgangsmáti af hálfu ríkisstjórnar við þessar aðstæður, þegar mjög miklu máli skiptir, í lokuðu hagkerfi innan hafta, að halda aftur af verðþenslu og þrýstingi á gengið. Í annan stað: Þegar aðrir eru búnir að ganga á undan með betra fordæmi en ríkið — það hefur sannanlega gerst, bæði fyrirtæki og sveitarfélög hafa haldið algjörlega aftur mörgum af hækkunum — þá ætlar ríkið samt að hækka um 2%. Ríkið ætlar ekki að leiða með besta fordæminu, ríkið ætlar ekki að ganga fremst. Ríkið ætlar sér sem sagt að eiga hlutdeild í verðbólgunni, ríkið ætlar sér að taka þátt í að kynda undir verðbólguþrýsting, ætlar ekki með eigin framgöngu og frumkvæði að halda aftur af verðbólguþrýstingi.

Við sjáum að verðbólgan hefur verið að mælast í 2,1 og 2,2%, rétt yfir þeim 2% sem ríkisstjórnin er að rembast við að koma sér niður í. Hvað segir það um veruleikaskyn hæstv. fjármálaráðherra? Hefði ekki verið eðlilegra að ríkið væri vel undir því sem er raunverðþróun í landinu? Hafði hæstv. fjármálaráðherra enga trú á því að hægt væri að halda aftur af verðþróuninni með samstilltu átaki? Svo virðist ekki vera, því að hann ákvað ekki að leiða með góðu fordæmi, það virðist ekki vera til í orðabók þessarar ríkisstjórnar, heldur vildi hann láta draga sig nauðugan. Hann vildi fá að þreifa á naglaförunum, eins og Tómas forðum, og sjá árangurinn þegar aðrir voru búnir að skapa hann. Það er ekki verklag sem mikill bragur er að fyrir ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Ég tel sjálfsagt að greiða leið og för þessa frumvarps í gegnum þingið, en það er óhjákvæmilegt að við ræðum hvort ekki sé eðlilegt að halda aftur af gjaldskrárhækkununum í heilsugæslunni, sem urðu um síðustu áramót. Ég sé ekki heldur að þeim hækkunum hafi verið ætlað að afla það mikils fjár inn í kerfið að ekki sé réttlætanlegt að draga þær til baka. Ákvarðanir um að draga þær til baka mundu skila sér beint til þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Það þarf ekkert að velta því fyrir sér hvort þetta olíufélagið eða hitt muni finna ástæðu hjá sér til að lækka verð þannig að neytendur njóti þess. Það er alveg öruggt að ef ákveðið er að lækka gjaldskrár í heilsugæslu þá gerist það á morgun, og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda munu njóta þess á morgun og það er enginn efi þar.

Þess vegna ítreka ég þá afstöðu okkar í Samfylkingunni að það sé fráleitt að forgangsraða gjaldtökunni með þessum hætti og eðlilegt að til lækkunar komi á þessum gjöldum, sem ríkisstjórnin lagði lykkju á leið sína fyrir áramót til að hækka langt umfram verðlagsforsendur.