143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það skýrt hér í desembermánuði að ég teldi ekki ástæðu til gjaldskrárhækkana og að ríkisstjórnin ætti að fylgja fordæmi Reykjavíkurborgar um að halda aftur af gjaldskrárhækkunum og frysta gjaldskrár á þessu ári til að halda aftur af verðbólgu og leita leiða til að ná kjarasamningum í landinu og friði á vinnumarkaði sem mundi gagnast okkur öllum. Ríkisstjórnin reyndist tregust til þátttöku í því frumkvæði af öllum í samfélaginu. Hún leiddi ekki með fordæmi, heldur var dregin til verka. Og verkin eru léleg og lítil.

Ég gagnrýni það líka að verið sé að lækka þessa hækkun, bara þessa hækkun en ekki aðrar hækkanir. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekkert komið hér og vísað í hækkun komugjalda og að þau séu eftir það með því lægsta sem tíðkast á Norðurlöndunum.

Virðulegi forseti. Frá árinu 2005 fram á síðasta ár hefur hlutur almennings í greiðslu heilbrigðiskostnaðar farið úr 15% í 25%, vegna þess að fjöldamargir þættir heilbrigðisþjónustu eru ekki lengur greiddir að nokkru leyti af ríkinu. Það er þess vegna ekki þannig að eitthvert svigrúm sé til að auka þátttöku almennings í greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Þvert á móti þarf að draga úr henni. Það er mjög mikilvægt að stíga frekar skref í þá áttina.

Síðan getur hæstv. fjármálaráðherra reynt að flytja ræður um það að hafa hefði þurft fjármálastjórn Reykjavíkurborgar með öðrum hætti á síðasta kjörtímabili. Vandinn er bara sá að tekið var við skelfilegu búi, jafnt efnahagslegri og pólitískri óreiðu, sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig, uppnám á uppnám ofan í stjórn borgarinnar. Tekist hefur að koma skikki á þann rekstur. Tekist hefur að koma rekstrinum í það horf að borgin ráði við það að kalla ekki eftir frekari gjaldskrárhækkunum á þessu ári.