143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sko hárrétt munað hjá hv. þingmanni að ég var sérstaklega ánægður með að fjárlögin væru sett fram án halla. Ég hafði hamrað á því frá vorinu og sumrinu að það væri mjög mikilvægt takmark sem menn yrðu að reyna að standa við jafnvel þótt erfitt yrði. Ég gekk nú reyndar lengra en það, ég hugsa að ég hafi verið einn fárra manna sem mæltu því frekar bót að mörkuðu tekjustofnarnir yrðu látnir fylgja verðlagi þannig að ekki myndaðist slaki, brenndur af þeirri reynslu frá því að ég kom að þessum málum árið 2009 þegar margra ára trassaskapur þýddi að margir af þessum sköttum höfðu ekki hækkað árum saman. Menn töldu sig vera svo ríka í góðærinu að sumt af þessum gjöldum hafði misst 30, 40, 50% af verðgildi sínu. Það var ekki sérstaklega gaman að þurfa að koma hér trekk í trekk fram með fjárlagafrumvarp eða skattafrumvörp og hífa þennan slaka upp, sem við gerðum í aðalatriðum á þremur árum, á áfengisgjaldi, tóbaksgjaldi, bensíngjaldi, þungaskatti o.s.frv.

Ég ætla að vera sjálfum mér samkvæmur og segja að það sé auðvitað ekki heppilegt að það myndist aftur slíkur slaki. Gagnrýni mín snýr ekki að því. Hún snýr að því að útfæra öðruvísi þær 460 milljónir sem ríkið ætlar að leggja í púkkið í tengslum við kjarasamningana og afsala sér í tekjum. Ég tel mjög misráðið að smyrja þessu svona þunnt yfir þessa liði og tel þetta ekki nauðsynjaútgjöld af því tagi sem hefðum átt þá að bera niður í. Gagnrýni mín er aðallega á það. 460 milljónir eru bara 460 miljónir, hvorki mikið né lítið, ég hef fyrir því orð aðila vinnumarkaðarins að það sé nákvæmlega það sem talað var um við þá 21. desember og þá bara stendur það.

Varðandi mörkuðu tekjurnar þá hélt ég nú reyndar ræðu í umræðum um það frumvarp frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar og niðurstaða mín þar er sú að þetta sé ekki bara svart og hvítt. Það er mikill eðlismunur á tilteknum mjög veigamiklum mörkuðum tekjustofnum (Forseti hringir.) eins og atvinnutryggingagjaldinu og þess vegna umferðarsköttunum sem renna til framkvæmda í samgöngumálum (Forseti hringir.) og svo ýmsu öðru (Forseti hringir.) sem ég tel að sé miklu nærtækara að byrja á að afnema.