143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í svolitlu hægri skapi í dag, þó góðu skapi sem er ekki svo algengt. Ég ætla að hlífa hæstv. ráðherra við þeim vangaveltum.

Í umsögninni með frumvarpinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Þeirri lækkun verður mætt með áformum um breytt fyrirkomulag við álagningu tóbaksgjalds og auknum arðgreiðslum frá ÁTVR þannig að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt frá áætlun fjárlaga.“

Nú velti ég svolítið fyrir mér að gert sé ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af umræddum gjaldstofnum muni lækka um 460 millj. kr. á ársgrundvelli, næstum því 0,5 milljarðar sem munar alveg um. Það er hægt að laga fullt af frekar alvarlegum vandamálum með lægri upphæðum.

Svo er ekkert skýrt neitt sérstaklega vel seinna meir hvernig eigi nákvæmlega að koma til móts við þessa lækkun. Frumvarpið sjálft er um lækkun á tóbaksgjaldi, ef ég skil það rétt, en samt er breyttu fyrirkomulagi við álagningu á tóbaksgjaldi beitt sem einhvers konar mótvægi. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra geti svarað því nákvæmlega hvað sé um að ræða, hvað eigi að koma til móts við þessa tekjuskerðingu ríkisins.