143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þennan tekjumissi verði hægt að bæta alfarið upp með auknum arðgreiðslum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins þannig að í sjálfu sér þurfi ekki annað að koma til. Þar sem minnst er á í greinargerðinni varðandi breytt fyrirkomulag álagningar er verið að viðra þá hugmynd að núverandi fyrirkomulag sem gefur smásöluverðið frjálst geti komið til endurskoðunar þannig að ríkið hafi meira um það að segja hvert smásöluverðið er, hvaða svigrúm smásalan á að hafa til álagningar á vöru af þessum toga, en ljóst er að álagningin á smásölustiginu er afar misjöfn og svigrúmið sem er til staðar til álagningar í þessum efnum yrði frekar nýtt af ríkinu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum. Það er í sjálfu sér engin vinna í gangi í ráðuneytinu að þessu leytinu til í augnablikinu, enda eins og ég sagði áðan er ástæða til að ætla að auknar arðgreiðslur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins muni fylla það skarð sem myndast eða það tekjutap sem verður af málinu.

Þar sem vísað er til breytts fyrirkomulags á álagningunni er fyrst og fremst verið að vísa í þennan möguleika. Það þekkist í öðrum löndum að ríkið stígi einfaldlega inn á þennan markað, markað með tóbaksvörur, kannski síður áfengi, fyrst og fremst í tóbakinu, og ákveði á endanum svigrúmið fyrir smásöluálagninguna.