143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[20:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sakna þess nú að umhverfisráðherra sé ekki með okkur hér við þessa umræðu um þá sátt sem … (Umhvrh.: Ég sit hér.)

(Forseti (SJS): Hann situr í hliðarsal.)

… hann situr í hliðarsal, það sá ég ekki. Það er gott að hann er kominn.

Ég vil, eins og hv. þm. Róbert Marshall, færa formanni nefndarinnar, Höskuldi Þór Þórhallssyni, bestu þakkir fyrir góða úrlausn í þessu máli. Eins og það kom fram hér fyrr í vetur var verið að kasta rýrð á þá miklu vinnu sem hafði verið lögð í málið og algjör óþarfi að ónýta þá vinnu með öllu. Þetta er farsæl lausn, hygg ég, að setjast betur yfir það og fresta einfaldlega gildistökunni.

Ég held að menn gætu lært mikið af þessum vinnubrögðum hjá formanni umhverfis- og samgöngunefndar. Það væri kannski gott fyrir hv. formann utanríkismálanefndar, sem hefur svipað ófriðarmál til umfjöllunar, að leita í smiðju til hv. þingmanns um hvernig stuðla megi að því að ná sátt um mál sem koma jafn illa undirbúin hér inn í þingið.

Ég vildi spyrja formanninn hvort þess hafi ekki verið kostur í vinnunni að ná samstöðu um gildistöku á þeim þáttum sem snúa að almannaréttinum. Ég spyr sérstaklega að þessu af því að mér virðist að það sé algerlega knýjandi úrlausnarefni sem í raun megi ekki fresta.

Ef ég hef skilið þetta rétt hefur sýslumaðurinn í Árborg úrskurðað að almannarétturinn sé ekki sterkari en svo að landeigendur geti meinað mönnum umferð um land sitt til þess að skoða náttúruperlur eins og Geysi og krafið þá um gjöld. Mér finnst einhvern veginn að þeir atburðir síðustu daga og vikna geri að verkum að það að tryggja réttarstöðu almennings í því samhengi sé miklu meira knýjandi nauðsyn en kannski lá fyrir þegar nefndin var að ná þessari sátt áður en þessi úrskurður féll, því að málið var afgreitt úr nefndinni fyrir þann úrskurð.