143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hverjum þykir sinn fugl fagur. Lausnir forsætisráðherra hafa þó ekki mikið litið dagsins ljós í þinginu, það er alveg ljóst. Við í Vinstri grænum höfum kallað eftir hinum ýmsu málum sem var lofað í aðdraganda kosninga. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn stjórnarinnar flytja ræður sem hljóta að eiga heima á þingflokksfundum eða eins og þeir séu í stjórnarandstöðu.

Eins og hér hefur þó komið fram er með aðkomu stjórnvalda ýmislegt hægt að leysa og það á bæði við um verkfall framhaldsskólakennara og líka verkfall þeirra sem starfa um borð í Herjólfi.

Varðandi það sem var sagt áðan um fjármálastefnuna og þau mál sem voru til umræðu í gær er vert að vekja athygli á því að það sem þar var rætt er akkúrat ekki í takt við það frumvarp um opinber fjármál sem á eftir að koma fyrir þingið.

Ástæðan fyrir því að ég kom hingað aftur er mál hælisleitenda sem við höfum rætt mikið í þinginu og tók á sig nýja mynd núna þegar rússnesk kona var rekin úr landi með nokkuð skömmum fyrirvara.

„Þau voru náttúrulega öll hágrátandi þarna og drengurinn svo ofboðslega leiður að geta ekki einu sinni kvatt krakkana sem hann var búinn að kynnast,“ segir fyrrverandi alþingiskona, Sigríður Jóhannesdóttir. Þar er hún að lýsa ferli ungrar rússneskrar móður sem hún hafði vingast við í Njarðvík en var rekin fyrirvaralaust úr landi. Sú var með tvö börn, 13 ára og tveggja ára, eldri strákurinn búinn að æfa sig fyrir Skólahreysti sem hann ætlaði að taka þátt í. Konunni voru gefnar 12 klukkustundir til að pakka saman og á staðinn mætti fólk með farseðla þannig að hún væri klár til brottfarar. Hún hafði flúið heimilisofbeldi múslimsks eiginmanns síns en hana á að flytja aftur til Rússlands.

Þetta er eitt af því sem við óttuðumst í tengslum við (Forseti hringir.) það að hraða meðferð í málefnum hælisleitenda, að svona lagað gæti komið fyrir. Ég trúi ekki að þetta sé það sem við viljum standa fyrir.