143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessu frumvarpi og þeirri viðleitni sem kemur fram í frumvarpinu til að einfalda regluverkið í kringum fiskeldi, auka skilvirknina og reyna að tryggja að menn geti fengið svör varðandi þá atvinnugrein.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að tæpa á við ráðherra eftir fyrstu kynni mín af frumvarpinu, ég hef ekki náð að lesa það nema rétt hér í þingsal. Varðandi gjaldtökuna sé ég að fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemdir, eins og venjulega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar á þennan hátt til reksturs ríkisaðila. Mig langar að inna ráðherra eftir því, vegna þess að líka er komið fram frumvarp frá stjórnendum eða formanni og einhverjum nefndarmönnum úr fjárlaganefnd, meiri hluta nefndarinnar, um að allir markaðir tekjustofnar verði afnumdir, hvernig það spilar saman.

Það er líka mjög forvitnilegt að sjá að hér er sett árgjald og það er miðað við verðlag. Það er athyglisvert fyrir þá sem hafa verið hér í ESB-umræðu að ekki er treyst á íslenskan gjaldmiðil heldur notað 6 SDR, sem mér reiknast til að sé í augnablikinu ein króna á hvert kíló. Upphæðin á þessu, við hvað er miðað, hvaðan kemur sú tala? Ég var að umreikna þetta yfir á heildarafla en það væri fróðlegt að skoða í samhengi, mér sýnist þetta ekki vera neitt gríðarlega háar tölur.

Í þriðja lagi langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að standa við það þegar við færum þetta yfir á eina stofnun, eða réttara sagt yfir í Matvælastofnun og síðan yfir í Umhverfisstofnun varðandi heilbrigðiseftirlitið, að þessi verkefni verði úti á landi, sem er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að reyna að færa verkefni út á land, að það færist ekki (Forseti hringir.) til borgarinnar heldur verði á heimaslóðum eins og hæstv. ráðherra nefndi sem möguleika.