143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

fiskeldi.

319. mál
[17:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki misskilið orð mín þannig að ég treysti ekki íslensku krónunni. Hér er farin leið til að koma til móts við þá aðila sem þurfa að kaupa allt það bix sem þeir nota erlendis frá og öll varan fer til útlanda. Við erum smátt og smátt að byggja upp þessa þekkingu hér innan lands og hún verður gríðarlega góð og mikil. Ég vænti mikils af þessari atvinnugrein, mér finnst hún mjög spennandi og ef okkur tekst á grundvelli þessa frumvarps — ef það þóknast þinginu og verður að lögum verðum við komin með góðan grunn til að byggja á, bæði til að verja umhverfið, verja villtu stofnana og gera eðlilegar kröfur til þessarar nýju atvinnugreinar. Þær eru íþyngjandi, greinin er tilbúin að taka þátt í því og þess vegna erum við líka tilbúin til að koma til móts við sjónarmið þeirra sem standa í þessum atvinnurekstri.

Varðandi það hvort ekki eigi að flytja allt sem tengist þessu á Vestfirði er rétt að geta þess að það er talsvert fiskeldi á Austfjörðum og það er líka möguleiki að byggja það upp á öðrum svæðum fyrir norðan, ekki síst í Eyjafirðinum og nokkrum öðrum svæðum, þótt við séum búin að loka fyrir flestalla firði og flóa til að að tryggja okkar íslensku veiðiár. Ég held að það hafi verið mjög framsýn ákvörðun sem var tekin hér 2004. Eftir sem áður eru talsvert stór svæði og öflug, ekki síst Vestfirðirnir og Austfirðirnir að einhverju leyti og Vestfirðirnir núna, sem eru mjög heppilegir til þessa. Ef menn bera saman stærð Vestfjarða til að mynda við Færeyjar, sem framleiða núna um tæp 70 þúsund tonn af laxfiski og við framleiðum líklega allt í allt um 7.500, sjáum við hvaða sóknarfæri við höfum.

Það eru því gríðarleg tækifæri sem menn hafa horft til og mér kæmi ekki á óvart ef þetta gengi vel. Margt bendir til að hér verði komin öflug atvinnugrein innan ekki svo margra ára sem verði (Forseti hringir.) farin að framleiða kannski 50 þúsund tonn, ef ekki meir.