143. löggjafarþing — 77. fundur,  19. mars 2014.

veiðigjöld.

372. mál
[18:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít náttúrlega svo á að við séum með frumvarpinu að koma til móts við það að búa til samráðsnefnd til að fjalla um þessi mál og hvet því þingið til að fjalla um þetta hratt og vel, sem ég veit að menn munu gera og ekki síst í atvinnuveganefndinni. Ég tel að mjög litlar líkur séu á því að fyrir þingið verði lagt frumvarp um hlutdeildarsetningu á makríl á þessu vorþingi af ýmsum ástæðum. Við erum auðvitað ekki að tapa af neinu tækifæri, gjald er lagt á makrílinn eins og aðra stofna. Það greiða allir auðlindagjald af nýtingu hans og hafa gert. Ég tel svo sem að við séum ekki að tapa af neinu tækifæri.

Ég hvet hins vegar þingið til þess að fjalla hratt og vel um frumvarpið til að grundvöllur að samráði komist á og tek undir það að heppilegra hefði verið að það hefði gerst fyrr. En í stað þess hef ég og ráðuneytið verið meira en tilbúið til að koma að samráði í atvinnuveganefnd þar sem fulltrúar allra flokka sitja.