143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:06]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverðar fyrirspurnir. Ég hef því miður ekki svar við því hvort gerð hafi verið greining á hversu mikill flutningskostnaður er til og frá Íslandi í samanburði við eitthvert Mið-Evrópuríki til dæmis, en áhugavert væri að kanna það hvort þær tölur liggja einhvers staðar fyrir.

Hugleiðingar varðandi lýðræðið eru líka áhugaverðar og hvernig og þá hvort Ísland gæti orðið fyrirmynd á því sviði. Málið snýst náttúrlega um mannréttindi. Við nefndum dæmi frá Sýrlandi og Norður-Kóreu. Og það að fá að iðka lýðræðið, eins og hv. þingmaður kallar það, er partur af mannréttindum, þannig að þetta er svona undir sama hatti.

Ég veit samt ekki hvort það mundi hreinlega æra óstöðugan að fara að skella á þjóðaratkvæðagreiðslum með sex mánaða millibili, eitthvað svoleiðis, hvort þær þjóðir ættu ekki að fara rólega í slíka þróun í átt til lýðræðis. Nú höfum við ríki eins og Sviss sem byggir samfélag sitt upp á virku lýðræði, virkara lýðræði en mörg önnur ríki, en ég held að allar þjóðir þurfi að fá tíma, þessir hlutir þurfa að fá tíma til að þroskast og þróast. Hugmyndin sem slík þarf að fá að þroskast hjá fólki áður en það fer kannski að iðka lýðræðið af fullum krafti eins og hv. þingmaður veltir fyrir sér.