143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búinn að rekja umgjörð afstöðu minnar með fullnægjandi hætti fyrir ráðherra. Ég bíð auðvitað eftir að sjá hvaða niðurstöðu er hægt að finna í þessu máli og öðrum. Lykilatriðið er að Ísland hafi ákvörðunarvald, deili ákvörðunarvaldi með öðrum þjóðum. Ég er ekki tilbúinn til að búa til eitthvert þykjustulýðræði sem felst í því að ákvarðanir séu í raun og sanni teknar við borðið í Evrópusambandinu og svo sé haldinn þykjustufundur eftir á með Íslandi og sett á einhver fundargerð um að fundur í þykjusturáðinu hafi farið fram og þykjustulýðræðinu hafi þess vegna verið fullnægt og þykjustustjórnarskráin þess vegna virt. Ég er ekki tilbúinn í það heldur.

Það verður að vera þannig að efnislegar ákvarðanir séu teknar á þeim fjölþjóðlega vettvangi sem Ísland á aðild að, efnislegar ákvarðanir. Það er lykilatriðið fyrir mér. Og það gildir um allt alþjóðasamstarf að mínu viti, óháð því hvort í því felst aðild að Evrópusambandinu eða hvort hægt sé að búa til aðrar sambærilegar lausnir annars staðar. Lykilatriðið er að efnisleg ákvörðun verði þar.

Mér þykir nefnilega allt of langt hafa verið gengið í umræðu um EES-samninginn á undanförnum árum, og frá því að hann var stofnaður, í þá átt að játa að það sé ásættanlegt fyrir þjóð sem vill verja fullveldi sitt að vera í þeirri stöðu að hafa ekkert um löggjöf að segja. Það er auðvitað mjög dapurlegt þegar eina efnislega innleggið í fullveldisumræðuna frá nýrri ríkisstjórn er að segja höfuðvanda okkar í alþjóðasamskiptum vera þann að við séum ekki nógu dugleg að hlýða, við hlýðum ekki nógu hratt, og það sé höfuðerindi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við landsstjórnina á sviði Evrópumála að lofa að vera lítilþægari leiðtogar þjóðarinnar og lúta fyrr í gras gagnvart erlendu valdi. Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin býður upp í Evrópustefnunni, (Forseti hringir.) hinni nýmótuðu stefnu ríkisstjórnarinnar.