143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra heiðarleg svör en hann segir réttilega: Það vantar meiri mannskap. Eigi að síður samþykkti stjórnarmeirihlutinn að ganga sérstaklega hart fram gagnvart utanríkisráðuneytinu í síðustu fjárlögum, ekki bara með almennum viðbótarniðurskurði heldur líka með því að taka upp sérstakt mál sem ætlunin var að bæta við í aukinn niðurskurð á utanríkisráðuneytinu og allt undir þeim formerkjum að ekkert þyrfti í raun að forgangsraða í þágu utanríkismála. Síðan daginn eftir er samþykkt stefna sem byggir á því að það þurfi einmitt aukinn mannskap til að gæta hagsmuna okkar og auðvitað er það rétt. Við erum lítið land, við eigum mjög mikið undir samskiptum við aðra og það höfum við vitað frá því að við námum hér land. Það var gríðarlega mikilvægt að hafa skipaferðir til annarra landa. Hvað gerðist þegar Íslendingar hættu að geta smíðað skip og farið til annarra landa? Þá upphófst hér niðurlægingarskeið. Það má segja að við höfum alltaf verið meðvituð um þörfina á því að eiga samskipti við önnur lönd.

Ég ætla að nota tækifærið og segja að mér hefur ekki fundist góður bragur á því hvernig utanríkisþjónustan hefur verið töluð niður og sett í samhengi við eitthvað annað. Það er ekki vinsælt að vera með utanríkisþjónustunni. Þá er maður „átómatískt“ orðinn á móti einhverju öðru, heilbrigðisþjónustunni eða einhverju slíku. Það er bara ekki rétt. Utanríkisþjónustan er líka liður í því að reka samfélag. Ég tel að nú sannist að hér hafi menn gengið allt of hart fram í niðurskurði í þessum málaflokki í síðustu fjárlögum og ég held að hæstv. utanríkisráðherra sé sammála mér í hjarta sínu. Þetta er eitthvað sem hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans mættu velta fyrir sér.