143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig á ég að vita hvað er að gerast í stjórnarskrárnefnd? Ég er bara starfsmaður á plani og … (BÁ: Ég sagði þetta ekkert fyrr í dag.)En í öllu falli svarar hv. þingmaður í reynd sínum eigin rökum. Hann segir, og ég dreg það ekkert í efa, að verið sé að velta fyrir sér breytingu á stjórnarskrá sem heimili takmarkað framsal. Það leysir ákveðin mál sem við höfum verið að velta fyrir okkur í nefndinni og mál sem við samþykktum á síðasta þingi. Ég minnist þess þegar ég sem utanríkisráðherra hafði miklar efasemdir um tiltekið mál og bað því nefndina um að skoða það rækilega hvort viðkomandi mál samræmdist stjórnarskrá. Lagabjörgin tvö sem við höfum stuðst við töldu að svo væri ef maður horfði þröngt á málið. Þau höfðu þó efasemdir um það ef við tækjum öll slík mál og legðum saman. En jafnvel þó að slík breyting yrði gerð bætir hún ekki, eins og ég skil málið, getu okkar til þess að taka t.d. upp þær gerðir sem við blasa. Ástæðan er sú að þar er um að ræða nýjar stofnanir sem við eigum ekki aðild að. Svo getum við deilt um það — og ég er ekki alveg viss um að ég sé fyllilega sammála mínum ágæta formanni og hv. þm. Birgi Ármannssyni um að það sé ógerlegt að taka upp gerðir sem setja okkur að einhverju leyti undir valdstofnanir sem við eigum ekki aðild að.

Það breytir ekki hinu að þó að þessi breyting verði gerð á stjórnarskránni er þetta tiltekna vandamál óleyst. Það er mesta vandamálið. Hvað gerum við þá? Það voru engin svör við því, jafnvel hjá hinum snjalla hugsuði, formanni utanríkismálanefndar. Hann benti á takmarkaða framsalsmöguleika, en stóru málin eru þar eftir sem áður. Þá hef ég samt sem áður þann valkost sem ég hef bent á. En hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur engan valkost.