143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að bæta örlítið við þá umræðu sem við áttum í nokkrir þingmenn í svörum og andsvörum áðan um EES-samninginn og þau vandamál sem honum tengjast. Ég tek undir að það eru tilvik, eins og ég hef svo sem getið um áður í umræðunni, þar sem íslenski löggjafinn hefur tekið ákvarðanir sem að sönnu orka tvímælis gagnvart stjórnarskránni. Nú er þess að geta að þau tilvik eru ekki svo mörg.

Ef við förum yfir hvernig þetta hefur verið er það að sjálfsögðu EES-samningurinn sjálfur sem var umdeildur á sínum tíma en talinn rúmast innan marka stjórnarskrárinnar af flestum fræðimönnum, þótt vissulega væru skiptar skoðanir í þeim hópi líka á þeim tíma.

Síðan var aðild okkar að Schengen umdeild út frá svipuðum forsendum þótt uppbygging þar sé með öðrum hætti. Að minnsta kosti er það mitt mat að ekki sé mikill vandi eða ástæða til að hafa áhyggjur af þeim þætti.

Síðan eru nokkur tilvik frá undanförnum árum. Það er samkeppnislagabreyting sem átti sér stað 2005, breyting á reglum varðandi loftferðir fyrir fáeinum árum og um loftslagsbreytingar 2012, ef ég man rétt. Þetta eru nokkur afmörkuð dæmi, en það er ekki, eins og stundum er látið í veðri vaka í umræðunni, eins og þetta sé heill hafsjór af málum. Þetta eru tiltölulega fá afmörkuð mál.

Sama er með þau mál sem eru í pípunum. Þau eru nokkur. Mér taldist einhvern tímann til að það væru fimm svona mál á leiðinni sem þingið þyrfti að taka afstöðu til á næstu missirum. Sum af þeim eru í þannig farvegi að enn þá er verið að reyna að vinna að lausn. Ég býst við að við munum líka ganga hreint og einlæglega til þess verks í þinginu þegar málin koma í okkar hendur. Í mörgum tillögum hygg ég að lausnirnar séu fyrir hendi og þær séu gerlegar þó að í öðrum tilvikum kunni að vera um að ræða erfiðar lausnir, getum við sagt sem svo.

Þannig að ég viðurkenni vandamálið en ég held að samt sem áður megi ekki gera of mikið úr því, því það gefur ekki rétta mynd af umfangi þeirra tilvika sem þarna er um að ræða. Menn tala um að dæmi um fullveldisframsal séu að safnast saman sem eru á grensunni, hvert um sig hugsanlega í lagi en samanlagt verði málin erfið. Ég held að við séum ekki komin á þann stað enn þá þótt ég viðurkenni núninginn og vandamálin sem þessu geta fylgt og við munum þurfa að takast á við.

Ég vil árétta þetta sérstaklega vegna þess að ég held að það sé afar langsótt ef menn ætla að leysa þessi álitaefni með aðild að Evrópusambandinu. Vissulega mundi allsherjar- eða einhvers konar heildsöluframsal á fullveldi til stofnana Evrópusambandsins gera að verkum að við stæðum ekki með sama hætti frammi fyrir þessum spurningum, en ég held að þar með værum við að ganga allt of langt. Það væri svipað því og þegar menn reyna að drepa mýflugur með fallbyssu vegna þess að þetta er ekki … (Gripið fram í.) Það getur virkað stundum, en svo er spurning hvort ekki sé of mikið í lagt að gera það með þeim hætti.

Í öllu alþjóðlegu samstarfi geta skapast aðstæður sem geta með einum eða öðrum hætti bundið hendur manna. Þegar menn taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þjóðréttarlegum grundvelli getur slíkt samstarf skapað skyldur fyrir ríkisvald sem það þarf að uppfylla. Margt í hinu alþjóðlega umhverfi felur auðvitað í sér að kostir okkar, valkostir okkar, þrengjast.

Í mínum huga eru slíkar aðstæður hins vegar allt annað en formlegt framsal á fullveldi. Það er langur vegur þar á milli. Við verðum fyrir áhrifum af ýmsum alþjóðlegum sáttmálum sem gerðir eru, en það er ekki þar með sagt að þeir hafi bein réttaráhrif hér eða að (Forseti hringir.) við séum skuldbundin hvað sem tautar og raular til þess að taka (Forseti hringir.) þá upp í íslenska löggjöf. Á þessu er (Forseti hringir.) í mínum huga töluverður munur. Ég vona að ég fái (Forseti hringir.) tækifæri til að koma inn á þetta, ef ekki síðar (Forseti hringir.) í þessari umræðu þá fljótlega.