143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

utanríkisstefna Íslands.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi fyrsta hluta spurningarinnar, um það hver fari með utanríkisstefnu Íslands, þá er það að sjálfsögðu utanríkisráðherra, ríkisstjórnin og þingið og utanríkismálanefnd heldur að sjálfsögðu alveg sérstaklega utan um það af hálfu þingsins.

Hvað varðar næstu spurningu, hvort ég hafi rætt það sérstaklega við forseta Íslands hver sé, eins og hv. þingmaður orðaði það, handhafi utanríkisstefnunnar, þá hef ég ekki talið ástæðu til að gera það. Ég held að forseta Íslands sé vel kunnugt um það hvernig menn skipta með sér verkum hvað þetta varðar. Forsetinn hefur hins vegar, eins og hv. þingmaður gat um, oft og tíðum mætt á hinar ýmsu ráðstefnur eða í viðtöl við erlenda fjölmiðla og rætt um þau mál sem hæst ber hverju sinni. Það er hins vegar ekki svo að forsetinn sé sendur á slíka fundi eins og spurt var um. Hvorki ríkisstjórnin né aðrir senda forseta Íslands á fundi til að svara þar fyrirspurnum eða reka erindi. Eðli málsins samkvæmt mætir forseti Íslands á hina ýmsu fundi víða um lönd og er eðlilegt að hann tjái sig þegar hann er spurður álits um stórmál sem eru til umræðu þá dagana.

Forseti Íslands hefur málfrelsi. Hann má lýsa skoðun sinni á málum, stórum sem smáum, og hefur á undanförnum árum oft og tíðum gert það ágætlega, einkum og sér í lagi hvað varðar þá áherslu forsetans að verja hagsmuni þjóðarinnar út á við í erfiðum deilumálum sem Íslendingar hafa átt í á undanförnum árum.