143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[15:35]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða losun og móttöku úrgangs frá skipum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, en einnig eru lagðar til breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003.

Breytingar þessar eiga rót sína að rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tilskipunar 2000/59/EB sem fjallar um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi frá skipum, í íslenskan rétt. Ástæðu breytinganna má rekja allt aftur til ársins 2010 þegar Siglingaöryggisstofnun Evrópu tók að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA út framkvæmd tilskipunar 2000/59 hér á landi. Niðurstaða athugana eftirlitsstofnunarinnar leiddu til þess að 10. júlí sl. birti Eftirlitsstofnun EFTA íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit þar sem hún taldi að tilskipunin hefði ekki verið rétt innleidd í íslenskan rétt.

Frumvarpi þessu er einnig ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar 2005/35/EB um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum. Eftirlitsstofnun EFTA vísaði því máli til EFTA-dómstólsins í desember 2013 vegna vanefnda á innleiðingu.

Í frumvarpinu eru því lagðar til breytingar varðandi losun mengandi efna sem eiga upptök sín í skipum og einnig að brot gegn ákvæði varðandi losun mengandi efna varði viðurlög, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

Frumvarp þetta er því lagt fram til að gera breytingu á lögum til samræmis við athugasemdir ESA varðandi innleiðingu tilskipunar 2000/59 og jafnframt til að innleiða ákvæði tilskipunar 2005/35 í íslensk lög. Við undirbúning frumvarpsins var unnið náið með Hafnasambandi Íslands en einnig var haft samráð við önnur stjórnvöld sem málið varða, svo sem innanríkisráðuneytið og Umhverfisstofnun, auk þess sem frumvarpið var sent hagsmunaaðilum til umsagnar.

Hæstv. forseti. Markmið tilskipunar um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi frá skipum, og þar með markmið frumvarpsins sem hér er lagt fyrir Alþingi, er að draga úr mengun hafsins með því að koma í veg fyrir að skip losi úrgang í hafið. Til að vinna að því markmiði er lagt til í frumvarpinu að skýrt verði kveðið á um að í öllum höfnum landsins skuli komið upp aðstöðu fyrir móttöku úrgangs frá skipum eða að rekstraraðilar hafna tryggi að þjónusta sé til staðar fyrir móttöku á úrgangi frá skipum. Þær skyldur eru lagðar á skipstjóra allra skipa sem koma til hafnar að skila öllum úrgangi frá skipi í aðstöðu hafnar, með vissum undantekningum þó.

Einnig er lagt til að skip sem koma til hafnar skuli greiða úrgangsgjald sem ætlað er að standa straum af aðstöðunni í höfn sem og móttöku og meðhöndlun úrgangsins. Þar eru þó fiskiskip undanskilin samkvæmt ákvæðum þeirrar tilskipunar sem liggur að baki þessu frumvarpi.

Virðulegur forseti. Ástand þeirra mála sem þetta frumvarp tekur til er að flestu leyti gott hér á landi. Skip skila úrgangi í höfnum og þar er undantekningarlítið aðstaða og fyrirkomulag til slíks þótt auðvitað séu hafnir mjög misstórar og aðstæður ólíkar. Það er þó ljóst að ákvæði laga um skyldu til að tryggja slíka aðstöðu og um gjaldtöku í því sambandi hafa verið ónóg og er þessu frumvarpi ætlað að bæta þar úr og skýra hlutverk og skyldur aðila í því sambandi.

Stærsta breytingin sem frumvarpið, verði það að lögum, mun fela í sér er að skýr ákvæði verða sett um gjaldtöku fyrir losun og móttöku úrgangs frá skipum í höfnum. Í frumvarpinu er lagt til að gjald fyrir losun úrgangs í höfnum verði útfært í hafnalögum sem hluti af almennu hafnargjaldi. Mikilvægt er að gjaldið feli ekki í sér hvata til að losa úrgang í hafið. Ákvæðum frumvarpsins um skyldu skipstjóra til að skila úrgangstilkynningu fyrir komu til hafnar, skyldu til að losa allan úrgang í höfn, framboð aðstöðu í höfnum fyrir móttöku úrgangs og um fyrirkomulag til gjaldtöku er ætlað að koma í veg fyrir að skipin sjái hag í því að losa úrgang í hafið.

Það er hagur Íslands að hafið í kringum okkur sé hreint og þessu frumvarpi er ætlað að stuðla að því markmiði.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.