143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er án efa þáttur sem menn þurfa að hafa augun á, að í gegnum farvegi af þessu tagi spretti ekki upp einhver atvinnurekstur, einhverjir sem fari að gera út á það sérstaklega að bjóða sig fram til þess að taka að sér málsóknir eða verkefni af þessu tagi. Það er ekki hægt að segja að maður sé hrifinn af öllu sem maður sér spretta upp og auglýsa starfsemi sína, eins og allir þeir aðilar sem nú um stundir fara mikinn og auglýsa að þeir aðstoði einstaklinga við að sækja sér bætur og annað í þeim dúr. Hér er greinilega að spretta upp iðnaður í þeim efnum á bandaríska vísu.

Mér finnst að sjálfsögðu jákvætt að færa félagasamtökum hlutverk að þessu leyti og þótt fyrr og í meira mæli hefði verið. Það er enginn vafi á því að á Íslandi var þetta mjög vanþróað. Hér dróst árum saman að innleiða Árósasamninginn sem færði umhverfisverndarsamtökum hlutverk og réttindi í þeim efnum. Víða í Evrópu eru félagasamtök, „NGOs“ ef ég má nota þá erlendu skammstöfun, virðulegur forseti, með miklu sterkara og skilgreindara hlutverk. Ég vek athygli á að Evrópuráðið leggur mjög mikið upp úr hlutverki félagasamtaka og lítur svo á að þau fari meðal annars með stórt hlutverk til að gæta mannréttinda og lýðræðis og tryggja rétt neytenda.

Ég er ekki að andmæla þessu máli á nokkurn hátt vegna þess að ég telji það ekki stefna í rétta átt, heldur spyr út í ákveðin framkvæmdaratriði sem hæstv. ráðherra varar sjálfsagt við á eftir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að ástandið á Íslandi undanfarin ár hefur vakið okkur af dvala varðandi ýmislegt af þessu tagi (Forseti hringir.) eins og það hversu erfitt það getur verið fyrir einstaklinga eina og sér að þurfa að (Forseti hringir.) sækja sín mál þar sem miklu betra væri að hægt (Forseti hringir.) væri að fara í hópmálsókn o.s.frv.