143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leiðrétta orð hv. þingmann um að þjóðkirkjan hafi verið yfirvald landsins um langa hríð og í gegnum söguna. Fátt er fjær sanni. Ég bendi hv. þingmanni á, af því að ég veit að hann er fróðleiksfús og hefur gaman af því að kynna sér málið, að lesa umræðurnar við lögtöku Jónsbókar árið 1280 og sjá með hvaða hætti kristin kirkja flutti sjónarmið inn í íslenskt samfélag sem voru algerlega óþekkt á Íslandi þá og fengu ekki hljómgrunn á hinum pólitíska vettvangi fyrr en með stofnun verkalýðshreyfinga og jafnaðarmannahreyfinga undir lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar. Með öðrum orðum, þá var ljóst að málflutningur Árna Þorlákssonar á Alþingi árið 1280 var sá að þar var talað fyrir réttindum þeirra sem engan rétt áttu og fyrir almennu félagslegu öryggi sem Ísland og íslensk saga bauð ekki upp á heldur þvert á móti nakið og kalt höfðingjavald.

Ég held að ómögulegt sé að endurskapa eða flytja samband þjóðar og þjóðkirkju yfir á önnur lífsskoðunarfélög og við eigum ekki að reyna það. Það er einfaldlega þannig að söguleg sérstaða og menningarleg sérstaða er að baki hugmyndinni um þjóðkirkju. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þjóðkirkjan hefur með sér sögu, en ég held að það sé einfaldlega engin leið að endurskapa það samband í tilviki allra annarra lífsskoðunarfélaga. En fjárútlát byggja á gagnkvæmum samningum og fjárhagslegum samningum milli kirkju og ríkis sem ríkinu ber auðvitað að virða í samræmi við það sem lagt hefur verið upp með.