143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:43]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka ánægju mína með viðhorf hv. þingmanns til þess verkefnis sem við ræðum um.

Aðeins varðandi þær spurningar sem hún beindi til mín. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það einfaldar málið að hafa almenna löggjöf, þá þarf ekki að leita eftir samþykki ESA við hvern samning né heldur að koma með hvern samning fyrir þingið.

En vandamálið var, sama hvað hv. þingmaður segir, að Bakkalögin grófu undan almennu lögunum. Það var þannig. Eins og ég lít á þetta og ég hef verið að velta því mikið fyrir mér núna: Eigum við að hafa almenn lög eða eigum við að gera sértæka samninga? Það eru kostir og gallar við hvort tveggja. Ef þú ert með almenn lög þarftu að sníða öll fyrirtæki inn í þau. Og það eru kannski atriði sem fyrirtæki er ekkert að fara fram á í ívilnun sem það fær þá „átómatískt“, ef ég má sletta, með almennu lögunum.

Ég lít svo á að ef við erum með almenn lög er það einmitt, eins og hv. þingmaður nefndi, skapalónið. Þá verðum við að vera með það einmitt vegna þeirrar ástæðu sem þingmaðurinn nefnir, að það einfaldar. Ef við ætlum síðan að gera undantekningar frá því þá erum við búin að eyðileggja skapalónið. Við þurfum því dálítið að vega og meta hvort við viljum. Þess vegna erum við að vinna að undirbúningi nýrrar almennrar löggjafar til að það verði einfaldara. Þess vegna erum við að leggja drög að því.

Til að svara hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á ég von á að koma með frumvarp, það er spursmál hvorum megin 31. mars það dettur, en við erum á síðustu metrunum með það. Þetta eru þau atriði sem við erum að vega og meta. En ég er alveg sannfærð um að við getum ekki haft hvort tveggja. Hins vegar er ég alveg tilbúin til að skoða það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. hvort hægt er að hafa einhver ákvæði (Forseti hringir.) í slíkum lögum um verkefni á nýjum stöðum þar sem ekkert (Forseti hringir.) er. Það er sjálfsagt að skoða það.