143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt annað en að ég hlakka til þeirrar umfjöllunar. Ég ber þá von í brjósti að með því frumvarpi, verði það samþykkt, verði meginmarkmiðið að bæta þessi mál öllsömul, bæði hvað varðar reikningsskil og það hvernig við undirbúum frumvarp til fjárlaga.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í halaklippingarnar. Þarna eru stofnanir sem hafa staðið sig og sýnt fram á að geta haldið sig innan fjárlaga og allt það, en miklu fleiri stofnanir eru með hala. Eru einhverjar samræmdar reglur og er tekið á þessum vandamálum með samræmdum hætti meðal þeirra stofnana sem reka sig með gamlan hala? Oft og tíðum hefur það slæm áhrif á vinnustaðamóralinn að vita af halanum, hvað þá að geta ekki ráðið við að borga hann niður.