143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[17:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á því tiltekna máli sem snýr að Landspítalanum og byggingaráformum þar. Í frumvarpinu er gerð ágætlega grein fyrir því hvernig sú skuld var til komin, hvernig átti með hana að fara og hvers vegna skynsamlegast þykir, nú þegar ekki er mikill kraftur í byggingarframkvæmdunum, að gjaldfæra þennan kostnað sem er ólíklegt að endurheimtist á næstunni.

Að öðru leyti vil ég segja um lífeyrisskuldbindingarnar að ég lagði mikið upp úr því við fjárlagagerðina árið 2014, yfirstandandi ár, að tekin yrði út staðan gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, bæði A- og B-deildinni, og hvernig uppsöfnuð skuldbinding liti út eins og hún blasir við okkur í dag. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það vantar töluvert mikið upp á að ríkið eigi fyrir þeim skuldbindingum sem er að finna í sjóðum. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að gríðarlega háar fjárhæðir muni falla á ríkissjóð á næsta áratug, þ.e. eftir 2025, á ári hverju ef ávöxtun sjóðanna verður ekki þeim mun meiri í millitíðinni eða inngreiðslur auknar.

Þarna er um að ræða vanda sem við þurfum að taka sérstaklega til skoðunar við fjárlagagerð á næstu árum og eins í tengslum við samninga á opinberum markaði, hvort einhverjar leiðir séu færar til að draga úr því mikla áfalli sem ella lendir á ríkissjóði þegar fram í sækir.