143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og verð að játa að ég þarf að taka undir ýmislegt sem hv. þingmaður sagði um árangurinn. Það er alltaf svolítið skrýtið að gera vegna þess að það var geigvænlegt ástand í ríkisfjármálum eftir hrunið 2008 og þess vegna í raun og veru ekkert nógu vel gert miðað við það sem maður mundi vilja, en auðvitað eru aðstæðurnar þannig eftir efnahagshrun að ekki er svigrúm til að gera allt sem menn vilja gera. Aftur verð ég að lýsa samúð minni, eins og ég hef áður gert í þessu púlti, með Samfylkingu og Vinstri grænum, svokölluðum vinstri flokkum, fyrir að hafa þurft að standa í aðgerðum sem voru þvert á það sem allir vinstri menn mundu vilja gera, og það er ákveðin fórn sem ég tel flokkana tvo hafa fært. Ég tel persónulega að sagan muni dæma fyrrverandi ríkisstjórn betur en margir gera núna, sérstaklega andstæðingar ríkisstjórnarinnar. Þetta segi ég án þess að vera sérstakur vinstri maður, alla vega ekki í dag.

Á síðasta kjörtímabili var farið út í aðgerðir til að auka gegnsæi hjá ríkinu og var það gert hjá fjármálaráðuneytinu, að mig minnir, hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og er það vel. Það er mjög gott en ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að með því að auka slíkar aðgerðir enn þá meira í takt við það og ganga lengra í þeim efnum sé hægt að fá almenning til að öðlast aðeins meiri sátt við það sem þurfti að gera á síðasta kjörtímabili, þvert á það sem fólk hefur kannski haldið að væru hagsmunir sínir.