143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[18:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get sagt það og tekið undir honum að auðvitað eru stærri ríkisfjármál og umgjörð þeirra býsna fráhrindandi fyrir venjulegt fólk. Ég notaði oft það dæmi í staðinn fyrir að tala um 214 milljarða halla sem menn skildu kannski ekki alveg að staða ríkisfjármála hefði verið þannig að það mætti líkja henni við heimili þar sem útgjöldin væru 550 þús. kr. og það vantaði fyrir því tekjur upp á 214. Það var nokkurn veginn umgjörðin sem við stóðum frammi fyrir. Það vantaði nærri helminginn af tekjunum.

Ég vil síðan þakka falleg orð í garð Samfylkingarinnar en vil líka segja að jafnaðarmenn hafa aldrei kveinkað sér undan því að taka ábyrgð á aga í ríkisrekstri. Vel rekinn ríkisbúskapur er forsenda jafnaðarstefnunnar því að ef efnahagslífið stendur ekki undir velferð og verðmætasköpun verður hún alltaf byggð á sandi og við hættum á að öfgaöfl fái tækifæri til þess að svipta fólk réttindum sem það hefur fengið í velferðarkerfinu þegar þau koma til valda ef það eru ekki til fjármunir fyrir öllu heila „gillimojinu“. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að velferð sé reist á traustum og sjálfbærum grunni, að það sé öflugt efnahagslíf sem skili miklum samfélagslegum arði sem standi undir útgjöldum til velferðarmála því að ef svo er ekki þá er svo létt verk fyrir andstæðinga almenns velferðarkerfis að kippa grunninum undan jöfnum tækifærum þegar þeir komast til valda.