143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

413. mál
[19:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Í frumvarpinu er lagt til að áréttaðar verði heimildir stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til þess að krefja þá sem innheimta sjóðsins samkvæmt 6. gr. laga nr. 129/1997 beinist að um greiðslu kostnaðar.

Með 5. mgr. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda falið það hlutverk, umfram aðra lífeyrissjóði, að innheimta lögboðið iðgjald í þeim tilvikum þegar engar upplýsingar liggja fyrir um sjóðsaðild manns. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, var gert ráð fyrir að erfiðara og kostnaðarsamara yrði að innheimta þessi iðgjöld en önnur lífeyrisiðgjöld og var stjórn sjóðsins heimilað að taka ákveðna þóknun af iðgjaldi vegna innheimtu þess þar sem ekki þótti sanngjarnt að sá kostnaðarauki sem af innheimtunni hlýst, m.a. vegna aukinnar umsýslu hjá sjóðnum og afskrifaðs gjaldfærðs innheimtukostnaðar vegna óinnheimtanlegra krafna, legðist á alla sjóðfélaga.

  Þeirri þóknun sem sjóðnum er heimilað að innheimta af skyldubundnum lífeyrisiðgjöldum og kveðið er á um í 1. málslið 8. gr. laga um Söfnunarsjóðinn er aðeins ætlað að standa straum af kostnaði sem sjóðurinn hefur af innheimtunni en ekki af kostnaði vegna aðkeyptrar innheimtuþjónustu verði ekki orðið við áskorunum sjóðsins um greiðslu iðgjalda.

Frumvarpið er lagt fram til að taka af allan vafa um heimildir Söfnunarsjóðsins til þess að krefja þann sem innheimta sjóðsins beinist að um greiðslu þess kostnaðar sem hlýst af aðkeyptri þjónustu við innheimtuna, enda hafi ekki verið orðið við áskorunum sjóðsins um greiðslu umræddra iðgjalda.

Þetta er tiltölulega einfalt mál. Ég tel að það sé ákveðið sanngirnismál. Það snýst í grunninn um það að þegar grípa þarf til innheimtuaðgerða með tilheyrandi kostnaði sé það sá sem innheimtan beinist að en ekki allir sjóðfélagar sem greiði þann kostnað.

Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.