143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

verndartollar á landbúnaðarvörur.

[10:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða aðeins við hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um tollamál. Ég veit að hann hefur gaman af að ræða þau mál við mig. Um daginn var ég að tala um osta og spurði ráðherrann hvort honum fyndist ekki réttlátt að ostar sem ekki eru framleiddir hér á landi væru fluttir inn án tolla og gjalda. Þegar ég tala um gjöld er ég líka að tala um tollkvótana sem við bjóðum út og þar af leiðandi leggst kostnaður á neytendur vegna þeirra.

Við ráðherra náðum kannski ekki alveg saman um ostamálið en nú hefur Félag atvinnurekenda kvartað yfir háum tollum á frönskum kartöflum og kartöfluflögum. Við erum að tala um toll á frönskum kartöflum sem eru 76% og kartöfluflögum 59% samkvæmt fréttum. Þá finnst mér rétt að spyrja ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þessir tollar séu óréttlátir og hvað hann ætli að gera í málinu. Ástæðan fyrir því að ég stend hér og spyr hæstv. ráðherra um þetta er sú að við teljum að tollastefnan í landinu þjóni ekki hagsmunum neytenda. Hún hækkar vöruverð og það er ekki ásættanlegt.

Ég spyr því ráðherra hvort honum finnist þessar álögur eðlilegar og hvað hann hyggist gera í málinu.