143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

menningarsamningar.

[10:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Gerð menningarsamninga hefur verið töluvert til umræðu á Alþingi í sérstakri umræðu sem og fyrirspurnum og undir liðnum um störf þingsins. Ég kýs að beina nú fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra vegna þessa. Til upprifjunar var fyrsti menningarsamningurinn gerður við Austurland árið 2001 og aðrir landshlutar og sveitarstjórnarsambönd komu inn árið 2007.

Allir eru sammála um að menningarsamningarnir sem slíkir hafi verið mjög mikilvægir og í raun lyft grettistaki vítt og breitt um landið. Að þessum fyrstu samningum komu ýmis ráðuneyti, þar á meðal ráðuneyti ferðamála, nú síðustu ár iðnaðarráðuneytið eftir að ferðaþjónustan var færð þangað. Iðnaðarráðuneytið lagði fram fjármuni í þessa menningarsamninga sem í dag væru í kringum 6 millj. kr.

Til að gera langa sögu stutta gagnvart menntamálaráðuneytinu hefur þetta verið hálfgert olnbogabarn á þessu ári og síðasta hausti sem lauk með því að ráðuneytið sendi loksins út drög að menningarsamningum hálftíma áður en sérstök umræða hófst á þriðjudaginn. Í þeim samningum kemur ýmislegt í ljós. Meðal annars sagði hæstv. menntamálaráðherra að menningartengd ferðaþjónusta félli þar út vegna þess að iðnaðarráðuneytið legði ekkert í þessa samninga á þessu ári.

Það er ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra beinna spurninga um það hvort hæstv. iðnaðarráðherra ætli ekki að leggja fram þessar um það bil 6 milljónir í hvern hinna sjö samninga, þ.e. 42 millj. kr., að þessu sinni.

Spurningin er einföld: Koma þessir peningar eða ekki úr iðnaðarráðuneytinu?