143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[11:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fjölmörg mistök voru gerð varðandi Íbúðalánasjóð og má deila um það hvort beinn kostnaður hvers heimilis í landinu verður 1 millj. kr. eða 2 millj. kr., en hvort tveggja er mikið. Ég er sammála framsögumanni að fyrst og fremst varð sá kostnaður til vegna pólitískra mistaka sem gerð voru hér á Alþingi. Við sem að þeirri umfjöllun komum, ég og hv. þingmaður og allir stjórnmálaflokkar, þurfum að læra af þeim mistökum en ekki að reyna að sópa þeim undir teppið.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki í raun og veru niðurlagning félagslega húsnæðiskerfisins sem sé rót þeirra mistaka sem gerð voru. Verkamannabústaðakerfið og ódýr lán til leiguíbúða voru lögð niður í kringum aldamótin. Í kjölfarið skapaðist mikill vandi á húsnæðismarkaði og á Alþingi reyndu menn að mæta því fólki sem var í vanda með stjórnlausu offramboði af mjög dýru lánsfé. Það var aldrei raunsætt að fólkið sem fékk þetta lánsfé gæti staðið í skilum með lánið að fullu né heldur leigufélögin sem fengu hin nýju og dýru lán. Það var alltaf óhjákvæmilegt að skattgreiðendur mundu axla verulegt tjón.

Þess vegna þurfum við sérstaklega að huga að því nú þegar við erum að endurreisa húsnæðiskerfið eftir efnahagshrunið að byggja aftur upp félagslegt húsnæðiskerfi í landinu þar sem fólki með lægri tekjur og meðaltekjur bjóðast kjör á íbúðarhúsnæði fyrir sig og fjölskyldur sínar sem það getur ráðið við og endar ekki með tugmilljarða eða hundruð milljarða bakreikningum fyrir skattgreiðendur eins (Forseti hringir.) og 90% vegferðin gekk.