143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skatttekjur af hverjum ferðamanni og þróun rekstrarumhverfis ferðamannaiðnaðarins.

[14:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú hefur ferðaþjónustan fest sig í sessi sem ein af okkar aðalgjaldeyrisskapandi atvinnugreinum. Þess vegna er orðið tímabært að staldra við og horfa á þá staðreynd að ferðaþjónustan hefur slitið barnsskónum.

Ég er mjög á móti undanþágum, er hrifnari af heildarrammalöggjöf og jafnræði atvinnuveganna. Þess vegna er kannski orðið tímabært að endurskoða þá ákvörðun að ferðaþjónustan fari að greiða jafn háan virðisaukaskatt og aðrar atvinnugreinar í landinu.

Hér hefur verið minnst á aðstöðu ferðamanna þegar þeir koma til landsins. Til dæmis fá bílaleigur niðurgreidd aðflutningsgjöld þegar þær eru í sínum rekstri. Það er líka spurning hvers vegna þeim hefur fjölgað. Eru nú komnar yfir 100 bílaleigur hér á landi sem er jafnvel vegna þess að ákveðin hlunnindi eru falin í því að flytja bíla til landsins. Bílaleigurnar þurfa ekki að eiga bílana nema í nokkra mánuði og geta svo selt þá á almennum markaði.

Þetta er mjög athugunarvert vegna þess að það hefur verið mikil ásókn í akkúrat þessa starfsemi. Því spyr ég: Hvers vegna eiga Íslendingar endilega að borga niður bíla sem erlendir aðilar nota hér á landi?

Þetta er eitt af því sem við þurfum að taka til athugunar þegar atvinnugreinin öll liggur undir og er til skoðunar. Ég vil að við hugsum stórt. Því er spáð að Íslendingar nái milljón ferðamönnum á næsta ári. Þess vegna staldra ég einnig við þá hugmynd hvers vegna við tökum ekki sama skref og til dæmis Bandaríkjamenn, að hér sé borgað gjald inn í landið, það gildi í tvö til þrjú ár í stað þess að koma upp flóknu fyrirkomulagi (Forseti hringir.) eins og umræður eru um ferðamannapassa með miklum tilkostnaði. Það gæti hreinlega (Forseti hringir.) verið aðgangseyrir inn í landið sem næði bæði yfir flug og skip. Það mundi einfalda málið, virðulegi forseti.