143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:38]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að svara þessari síðustu spurningu. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Þessir 270 milljarðar voru settir upp í ákveðnu samhengi og gætu orðið að veruleika, en ég ætla líka að segja að þessir 60 eða 63 milljarðar eða guð má vita hvað er búið að borga nú þegar er ekki það síðasta sem við þurfum að borga. Sú tala á eftir að hækka.

Auðvitað eru ekki 100% líkur á því að allt verði borgað upp á morgun. En engu að síður, ég segi einfaldlega að við erum ekki búin að sjá fyrir endann á tjóni hjá Íbúðalánasjóði og jafnvel þó svo væri þá finnst mér bara rúmlega 60 milljarðar dálítið mikið. (BN: Það er ekki búið að greiða þá.) Jú. (Gripið fram í: Nei.) Jú. (Gripið fram í: Nei.)

Ég ætla ekki að deila við ykkur, þingmenn góðir, en ég þurfti tvisvar sinnum að greiða atkvæði í haust. Ég var að tala við hv. þingmann, fyrrverandi fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) þar sem hann lýsti greiðslum sínum á starfstíma sínum.