143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[16:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða þessa skýrslu. Hér var sagt að þingmenn og ríkisstjórn hefðu ekki sinnt eftirlitshlutverkinu á sínum tíma. Það nákvæmlega sama er upp á teningnum hér, það má ekki ræða ákveðna hluti. Ég var margoft gagnrýndur fyrir að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs. Menn geta flett þeim munnlegu og skriflegu fyrirspurnum upp í þingtíðindum sem og umræðum í þinginu. Ég hef fyrr verið ásakaður, sérstaklega af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, fyrir að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs og voga mér að ræða þau mál, m.a. af hverju Fjármálaeftirlitið væri til dæmis ekki með eftirlit með Íbúðalánasjóði eins og öðrum fjármálastofnunum.

Við höfum lent í mjög alvarlegum hlutum sem verður ekki breytt en það er mjög sorglegt og slæmt ef við lærum ekkert af því. Til dæmis er augljóst að við þurfum núna, ég ætla að taka nokkra þætti fyrir, að skoða það sérstaklega hvernig við framkvæmum rannsóknir. Þessi skýrsla kostar 250 milljónir og næsta skýrsla kostar enn meira, engar áætlanir standast og eftirlit þingsins er í fullkomnum molum, og þá verðum við að fara yfir það. Þau rök úr ræðustól Alþingis að erfitt sé að áætla verk rannsóknarnefnda eru í fyrsta lagi engin rök en ef menn eru sammála þeim rökum á það ekki bara við um rannsóknarnefndir Alþingis, það á við um allan ríkisreksturinn. Halda menn virkilega að það sé auðvelt að áætla allan ríkisrekstur? Halda menn að þetta sé allt saman alveg opin bók? Við eigum að gera þá kröfu til þeirra sem bera ábyrgð hjá framkvæmdarvaldinu að þeir séu með áætlanir sem standast. Það er sú krafa sem við eigum að gera. Það er krafa sem aðrar þjóðir gera og við eigum að gera það líka.

Þingið fór af stað með verkið og áætlanir stóðust ekki og eftirlit var í fullkomnum molum. Einhverra hluta vegna mallaði þetta áfram og við erum að sjá hér kostnað upp á hundruð milljóna. Við verðum að rannsaka það. Við eigum gera meira af því að skoða verkin en áætlanir verða að standast. Auðvitað verðum við að skoða hvernig þetta getur gerst.

Í fjárlagagerðinni erum við að skoða tugi milljóna í heilbrigðismál og annað viðlíka. Við erum að reyna að finna fé til að setja í verk sem við erum sammála um. Í þessu tilfelli malla hins vegar gríðarlega stórar upphæðir stjórnlaust, eftirlitslaust, og koma úr vösum skattgreiðenda. Hvernig má það vera? Það verðum við að skoða og menn verða að skoða það gagnrýnið.

Annað sem við verðum að skoða gagnrýnið er stefna eða stefnuleysi stjórnvalda á þessum árum. Ég hef margoft bent á það fyrir fullkomlega daufum eyrum að stefnan í húsnæðismálum gekk út á það að hvetja til skuldsetningar. Það gekk allt út á að hvetja til skuldsetningar. 90% lánin eru eitt dæmi þess, annað er vaxtabæturnar og í ofanálag var sú umræða í gangi að ekki mætti ræða hlutverk Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður á að hjálpa fólki að eignast húsnæði. Íbúðalánasjóður er ekki markmið í sjálfu sér, en þannig var talað.

Ég var í hv. félagsmálanefnd þegar þessar breytingar tóku gildi. Ég veit hverjir komu að þeim, hverjir voru ráðgefandi og hvernig umræðan var í þinginu og nefndinni. Þetta gekk allt út á að sérstaklega hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ásökuðu okkur sjálfstæðismenn um það sem væri mikill glæpur, reyndar framsóknarmenn líka, að hafa látið í minni pokann fyrir Framsóknarflokknum, að koma í veg fyrir að Íbúðalánasjóður gæti verið samkeppnishæfur á þessum markaði. Við erum ekki að setja endalausa ríkisábyrgð á stofnanir til þess að vera samkeppnishæfar einhvers staðar. Við erum að hjálpa fólki til að eignast húsnæði. Ef bankarnir fara fram með þessum hætti skulum við láta þá gera það, ekki keppa við þá og ýta undir breytnina.

Það er enginn vafi á því að svo sannarlega var þetta engin gagnrýni af minni hálfu hvað það varðar. Ég fer ekki ofan af því, ég ber meðal annars ábyrgð á því. Ég var með þau varnaðarorð að kerfi okkar og stefna gengi út á það eitt að hækka fasteignaverð. Um leið og það hættir að hækka verður gríðarlegt áfall.

Þegar ég sagði þessi orð í þinginu kom hv. þingmaður Samfylkingarinnar, fleiri en einn ef ég man rétt en einn er í rannsóknarskýrslu á bls. 36 ef ég man rétt, og viðbrögðin voru ýmist hörð gagnrýni á mig eða það var gert grín að mér. Það var sagt: „Ertu að spá nýju bankahruni?“ vegna þess að ég benti á að í Noregi og öðrum löndum sem urðu fyrir bankahruni hætti fasteignaverð að hækka, það lækkaði með sömu afleiðingum og varð hjá okkur seinna. Á þessi orð var ekki hlustað. Það var ekki hlustað á þessi varnaðarorð sem komu fyrst í samfélaginu. Því miður var það þannig, svo það sé sagt eins og það var, að bankarnir byrjuðu með þessi varnaðarorð. Svo sneru þeir við blaðinu og gengu miklu lengra. Þeir voru ekki bara með 90% lán, þeir komu með 100% lán. Þetta er alltaf það sama, það er ekkert flókið í þessu. Það er einn galli við skuldir, það þarf að endurgreiða þær, annars eru þær bara fínar. Ef maður fær lán fyrir húsnæði og það lækkar í verði lækkar lánið ekki. Það er ekkert flókið í þessu.

Sá lærdómur sem við drögum af þessu hlýtur að vera að við byggjum upp þjóðfélag sem ýti undir ráðdeild og sparnað, hjálpi fólki til að eignast þak yfir höfuðið með þeim hætti en ekki hvetja til skuldsetningar.

Ég hitti oft fólk sem sagði við mig á þessum tíma, áður en þetta fór allt af stað: Ég var hjá endurskoðandanum mínum — ég man sérstaklega eftir einu samtali sem ég átti — sem sagði að ég þyrfti að auka skuldir mínar eða bæta við lánin mín um milljón, sem var mikið á þeim tíma. Og ég spurði: Af hverju í ósköpunum? Það var til þess að viðkomandi fengi áfram vaxtabætur. Það voru svörin. Við byggðum þetta kerfi upp. Spurningin er: Ætlum við að læra af þessu eða ætlum við að halda þessu áfram?

Mér finnst stóri lærdómurinn vera sá að við verðum að skoða hvernig við framkvæmum rannsóknir. Það er fullkomlega óþolandi að þegar við fáum rannsóknarskýrslu fari hún langt fram úr heimildum og sé þannig gerð að við erum endalaust að diskútera þann þáttinn. Það er ekki boðlegt.

Við verðum að hugsa hlutina til enda og vera með vandaða stefnu. Þegar kemur að húsnæðismálum er ég mjög harður á því, var þá og er nú, að ég hef ekki séð neina þjóð á þeim stað sem við viljum vera án þess að ýta undir ráðdeild og sparnað. Ef við hefðum sett helminginn af þessum fjármunum í beina styrki til fólks til að kaupa sér húsnæði alveg eins og við settum í þessa hluti ættu flestir á Íslandi skuldsett húsnæði í dag svo menn setji það í það samhengi. Ef við settum þessar 40 þús. milljónir sem við erum að setja í Íbúðalánasjóð í að hjálpa fólki að eignast húsnæði eða greiða niður skuldir sínar væri það góð staða.

Við eigum að vera gagnrýnin í hugsun. Það mega ekki vera neinar heilagar kýr í pólitískri umræðu. Íbúðalánasjóður var heilög kýr. Ég fletti þessu upp fyrir stuttu. Ég var, eins og ég nefndi í upphafi ræðu, ásakaður fyrir að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs hvað eftir annað. Hvað er að því að taka upp málefni ríkisbanka sem á að gegna þessu mikilvæga hlutverki? Menn tala hér um Framsóknarflokkinn, þeir sem gengu langlengst í því voru hv. þingmenn Samfylkingarinnar og hv. þingmenn Vinstri grænna svo það sé alveg sagt. Það er samt aukaatriði í þessu. Stóra málið er að við verðum að læra af þessu, annars höfum við eytt miklum tíma og gríðarlega miklum fjármunum, tapað miklu, og ekki til neins. Við erum í verri stöðu en (Forseti hringir.) fjárhæðirnar einar gefa til kynna. Þá eru líkur á því að (Forseti hringir.) við lærum ekki af þessu og gerum sömu mistökin aftur.